Opinberaði byrjunarlið Brasilíu

Marcelo er búinn að jafna sig á meiðslum.
Marcelo er búinn að jafna sig á meiðslum. AFP

Tite, landsliðsþjálfari brasilíska karlaliðsins í fótbolta, opinberaði í dag byrjunarliðið sem hann stillir upp á móti Belgíu í 8-liða úrslitum á HM í Rússlandi. Hann staðfesti að Marcelo kemur inn í vinstri bakvarðarstöðuna í stað Filipes Luis.

Marcelo er búinn að glíma við meiðsli í baki og fór hann af velli á móti Serbíu í riðlakeppninni og spilaði ekkert í sigrinum á Mexíkó í 16-liða úrslitunum. Hann hefur hins vegar jafnað sig og kemur aftur inn í byrjunarliðið. 

Fernandinho verður í byrjunarliðinu í fyrsta skipti á mótinu, en hann kemur inn í stað Casemiros, sem er í leikbanni. Gabriel Jesus heldur svo áfram að leiða framlínuna, þrátt fyrir að hafa ekki skorað á mótinu. 

Byrjunarlið Brasilíu á morgun: 
Alisson, Fagner, Thiago Silva, Miranda, Marcelo, Fernandinho, Paulinho, Coutinho, Willian, Neymar, Jesus. 

mbl.is