Eins og Ísland-England á EM

Kolbeinn Sigþórsson fagnar marki sínu gegn Englendingum á EM sem …
Kolbeinn Sigþórsson fagnar marki sínu gegn Englendingum á EM sem reyndist sigurmarkið. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Svíinn Sven-Göran Eriksson fyrrverandi landsliðsþjálfari Englendinga líkir viðureign Svía og Englendinga í átta liða úrslitunum á HM í knattspyrnu á morgun við leik Íslendinga og Englendinga í 16-liða úrslitunum á EM í Frakklandi þar sem Íslendingar unnu frækinn 2:1 sigur.

Eriksson telur að það yrði auðveldara fyrir Englendinga að leggja Brasilíumenn að velli heldur en Svía en hann býst við því að það verði erfitt fyrir Englendinga að brjóta á bak aftur sterkt lið Svía.

„Það væri auðveldara fyrir England að vinna Brasilíu heldur en Svíþjóð að mínu viti. Það er mjög erfitt að brjóta þetta sterka sænska lið á bak aftur. Framherjar Svía eru varnarmenn þegar það þarf að verjast og þeir geta varist í eigin vítateig.

Þetta verður erfiðasti leikur Englendinga til þessa á HM. Ítölum tókst ekki að skora í 180 mínútur í umspilsleikjunum og Þjóðverjar áttu erfitt gegn þeim þótt þeim hafi tekist að merja sigur á lokamínútunum. Svisslendingar hefðu getað spilað í viku án þess að skora á móti Svíunum

Sænska liðið verður meira og minna eins og íslenska liðið gerði á móti Englandi á EM 2016.  Svíarnir eru ekki með bestu fótboltamennina í heimi og enginn af okkar leikmönnum spilar með stærstu liðum í heimi frá því Zlatan hætti. En sem lið, hvernig það vinnur saman þá er það eitt af þeim bestu. Þú finnur ekki betra lið,“ segir Eriksson sem stýrði Englendingum á HM 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert