Frakkar í undanúrslit eftir sannfærandi sigur

Frakkar fagna öðru marka sinna í Nisní Novgorod í dag.
Frakkar fagna öðru marka sinna í Nisní Novgorod í dag. AFP

Frakkar urðu fyrstir til að bóka sér sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu er þeir lögðu Úrúgvæ að velli, 2:0, í Nisní Novgorod í Rússlandi í dag.

Raphaël Varane braut ísinn á 40. mínútu með skallamarki eftir vel útfærða aukaspyrnu Antoine Griezmann sem átti svo eftir að skora annað markið sjálfur. Það gerði hann á 61. mínútu með skoti beint á Fernando Muslera í markinu sem varð fyrir því óláni að verja boltann í markið.

Þar á milli átti Hugo Lloris ótrúlega markvörslu frá José Giménez sem skallaði að marki af stuttu færi undir lok fyrri hálfleiksins en nær komust leikmenn Úrúgvæ ekki og eru því á leiðinni heim.

Frakkar verða hins vegar í Pétursborg á þriðjudaginn kemur og mæta þar annaðhvort Brasilíu eða Belgíu sem eigast við síðar í kvöld.

Nahitan Nandez og Lucas Hernandez í baráttu um boltann í …
Nahitan Nandez og Lucas Hernandez í baráttu um boltann í Novograd í dag. AFP
Úrúgvæ 0:2 Frakkland opna loka
90. mín. Antoine Griezmann (Frakkland) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert