Ibrahimovic skorar á Beckham

Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. AFP

Zlatan Ibrahimovic hefur skorað ensku goðsögnina David Beckham á hólm en ástæðan er auðvitað leikur Svíþjóðar og Englands í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Rússlandi á morgun.

Ibrahimovic á að baki 116 landsleiki fyrir Svíþjóð, Beckham á 115 fyrir England. Báðir eru þeir hættir að leika með landsliðum sínum og Beckham auðvitað búinn að leggja skóna á hilluna. Ibrahimovic er áfram að og spilar með LA Galaxy í Bandaríkjunum.

Í færslu á Facebook-síðu sinni leggur Ibrahimovic til að þeir kappar veðji um úrslit leiksins. Takist Englendingum að leggja Svía að velli ætlar hann að bjóða Beckham út að borða, hvar sem er í heiminum.

Hafi Svíþjóð betur hins vegar þarf Beckham að gera sér verslunarferð í sænsku húsgagnaverslunina IKEA og kaupa hvað sem Ibrahimovic langar í.mbl.is