Liðsfélagi Íslendinganna féll á lyfjaprófi

Saeid Ezatolahi í leik með Írönum gegn Portúgölum á HM.
Saeid Ezatolahi í leik með Írönum gegn Portúgölum á HM. AFP

Fregnir frá Rússlandi herma að fyrsti leikmaðurinn á HM í knattspyrnu í Rússlandi hafi fallið á lyfjaprófi.

Umræddur leikmaður er íranski miðjumaðurinn Saeid Ezatolahi sem þótti vera besti leikmaður Írana á heimsmeistaramótinu. Rússneski miðillinn Mutko Protiv greinir frá þessu og segir að sýni sem tekið var af Ezatolahi hafi mælst jákvætt. Ezatolahi var í leikbanni í fyrsta leik Írana á HM en lék allan tímann í leikjunum á móti Spánverjum og Portúgölum.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur ekki tjáð sig um málið en beðið er eftir niðurstöðu á B-sýni.

Ezatolahi er 21 árs gamall og á að baki 27 leiki með íranska landsliðinu. Hann leikur með rússneska liðinu Rostov og er þar liðsfélagi landsliðsmannanna Ragnars Sigurðssonar, Sverris Inga Ingasonar og Björns Bergmanns Sigurðarsonar.

mbl.is