Önnur gömul kempa býður sig fram

Alfreð Finnbogason og Emil Hallfreðsson í baráttu við Lionel Messi …
Alfreð Finnbogason og Emil Hallfreðsson í baráttu við Lionel Messi á HM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Önnur gömul kempa argentínska landsliðsins í knattspyrnu hefur nú boðið fram krafta sína og segist tilbúinn að taka við þjálfun argentínska landsliðsins.

Á dögunum sagðist Diego Maradona vera reiðubúinn að taka við þjálfun landsliðsins og gera það án greiðslu og nú hefur Mario Kempes bæst í hópinn.

„Að sjálfsögðu vil ég þjálfa landsliðið,“ sagði Kempes í viðtali við ESPN en hann starfar sem lýsandi sjónvarpsstöðvarinnar á heimsmeistaramótinu.

„Það er verk að vinna en tíminn er nægur til að koma upp með gott verkefni og takast við áhugaverða áskorun,“ sagði Kempes, sem varð heimsmeistari með Argentínumönnum árið 1978 og skoraði tvö mörk í 3:1 sigri Argentínumanna gegn Hollendingum í úrslitaleiknum.

Argentínumenn undir stjórn Jorge Sampaoli töpuðu fyrir Frökkum 4:3 í 16-liða úrslitunum á HM og er mikill þrýstingur á forráðamenn argentínska knattspyrnusambandsins að reka Sampaoli úr starfi.

Kempes, sem er 63 ára gamall, hefur ekki þjálfað síðan árið 2002 en hann þjálfaði lið í Albaníu, Indónesíu, Kostaríka og Bólivíu og stýrði nokkrum neðrideildarliðum á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert