Króatar skutu heimamenn úr leik

Ivan Rakitic skýtur Króötum í undanúrslit.
Ivan Rakitic skýtur Króötum í undanúrslit. AFP

Króatía tryggði sér sæti í undanúrslitum á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu með sigri á heimamönnum í Rússlandi. Staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma og framlengingu og réðust úrslitin því í vítaspyrnukeppni.

Denis Tsjerishev kom Rússum yfir með glæsilegu skoti utan teigs á 31. mínútu en átta mínútum síðar jafnaði Andrej Kramaric og var staðan í leikhléi því 1:1. Ekkert var skorað í síðari hálfleik þrátt fyrir fín færi beggja liða og því varð að framlengja. 

Domagoj Vida kom Króötum yfir með skalla eftir hornspyrnu á 100. mínútu og virtust Króatar á leiðinni áfram. Rússar gáfust hins vegar ekki upp því Mário Fernandes jafnaði á 115. mínútu og tryggði Rússum vítakeppni. 

Bæði lið unnu andstæðinga sína í 16-liða úrslitum í vítakeppni, en í dag reyndust Króatar sterkari á punktinum. Króatía skoraði úr fjórum af fimm spyrnum sínum, en Rússar aðeins úr þremur og komust Króatar því áfram. Ivan Rakitic, leikmaður Barcelona, skoraði úr síðasta vítinu, rétt eins og á móti Dönum í 16-liða úrslitunum. 

Króatía mætir Englandi í Moskvu á miðvikudaginn kemur. 

Rússland 5:6 Króatía opna loka
120. mín. Leik lokið
mbl.is