22 ára lag Englands toppar vinsældalistann

Þessir ensku stuðningsmenn bíða í ofvæni eftir að „fótboltinn komi …
Þessir ensku stuðningsmenn bíða í ofvæni eftir að „fótboltinn komi heim“. AFP

Stuðningsmannalag enska landsliðsins sem kom út fyrir Evrópumótið í knattspyrnu 1996 hefur risið á topp vinsældalista þar í landi á nýjan leik. 

Smellurinn heitir Three Lions en grínistarnir David Baddiel, Ian Broudie og Frank Skinner sömdu lagið fyrir einum 22 árum. Lagið fjallar um brostna drauma og nýjar vonir enska landsliðins en þegar það var samið voru 30 ár liðin frá fyrsta og eina sigri Englands á heimsmeistaramótinu.

Í laginu syngja þeir félagar hástöfum football's coming home og eiga þar við að knattspyrnan eigi heimkvæmt en Englendingar telja sig „eiga“ íþróttina, alla vega í þeirri mynd sem við þekkjum hana í dag. Þegar lagið kom út árið 1996 voru Englendingar gestgjafar lokakeppni EM en þeir höfðu einnig verið á heimavelli þegar þeir sigruðu á HM árði 1966. 

Frasinn „fótboltinn er á leiðinni heim“ fer um samfélagsmiðla eins og eldur í sinu um þessar mundir og er hið rúmlega tveggja áratuga gamla lag aftur efst á vinsældalistum Englands.

Englendingar mæta Króatíu í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í Rússlandi á miðvikudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert