Kane í dauðafæri á að verða markakóngur

Harry Kane.
Harry Kane. AFP

Það bendir margt til þess að Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins, muni ná markakóngstitlinum á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

Kane er markahæstur á HM. Hann hefur skorað 6 mörk, tveimur mörkum meira en næstu menn en það eru Belginn Romelu Lukaku, Portúgalinn Cristiano Ronaldo og Rússinn Denis Cheryshev.

Ronaldo og Cheryshev hafa lokið keppni á HM en Kane og Lukaku eru komnir í undanúrslitin með liðum sínum. England mætir Króatíu í undanúrslitunum og Belgía leikur gegn Frakklandi.

Belgar hafa skorað flestu mörkin á HM eða 14 talsins, Englendingar og Rússar 11, Króatar 10 og Frakkar 9.

Guillermo Ochoa, markvörður Mexíkó, hefur varið flest skotin á HM eða 25, Daninn Kasper Schmeichel kemur næstur með 21 og Rússinn Igor Akinfeev 18.

mbl.is