Kraftaverk eða svindl?

Rússar féllu út eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni gegn Króötum í ...
Rússar féllu út eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni gegn Króötum í 8-liða úrslitum í gærkvöldi. AFP

Þegar Vetrarólympíuleikarnir voru haldnir í Sotsji í Rússlandi fyrir fjórum árum hlutu heimamenn flest verðlaun, 33 og af þeim voru 13 gullverðlaun. Frammistaða rússneska íþróttafólksins virtist hreinlega vera of góð til að vera sönn, enda kom það líka á daginn.

Alþjóðaólympíunefndin (IOC) beitti refsiaðgerðum gegn 15 íþróttamönnum í kjölfar ítarlegrar rannsóknar á ríkisskipulögðu lyfjamisferli í Rússlandi. Lyfjamisferlið náði hámarki á leikunum í Sochi en þar vildi Vladimir Pútín, forsætisráðherra Rússlands, sýna fram á að íþróttafólk hans væri í allra fremstu röð.

Árangur slakasta liðsins vonum framar

Fjölmargir hafa velt því fyrir sér hvort frábær árangur rússneska knattspyrnulandsliðsins á heimsmeistaramótinu, sem fer fram þar í landi líkt og leikarnir í Sochi, sé tilviljun. Rússar voru neðstir á styrkleikalista FIFA af þátttökuþjóðunum þegar mótið hófst en féllu úr leik í gærkvöldi eftir tap gegn Króatíu í 8-liða úrslitum.

Þrátt fyrir að ekkert hafi komið í ljós sem bendi til þess að rússnesku landsliðsmennirnir hafi neytt ólöglegra efna til að bæta árangur sinn hefur frammistaða þeirra orðið til þess að margir klóra sér í kollinum.

Stórt svart ský mun fylgja þeim

„Vonandi hafa þeir farið eftir reglum og frammistaða þeirra er kraftaverk,“ sagði Travis Tygart, framkvæmdastjóri bandaríska lyfjaeftirlitsins, í liðinni viku.

„Það er ósanngjarnt að komast að annarri niðurstöðu. Vandamálið er hins vegar að kerfið í Rússlandi hefur brugðist þessum íþróttamönnum og stórt svart ský mun fylgja þeim þegar þeir standa sig vel,“ bætti hann við.

Sergei Ignashevich lagði skóna á hilluna að móti loknu en ...
Sergei Ignashevich lagði skóna á hilluna að móti loknu en hann verður 39 ára á laugardag. AFP

Rússarnir hafa hlaupið mest allra liða í mótinu og hafa auk þess tekið flesta spretti. Það vakti athygli þegar Rússar höfðu betur gegn Spánverjum í 16-liða úrslitum þegar Aleksandr Golovin hristi Spánverjann Iago Aspas af sér í framlengingunni.

Æfa í grennd við svindlara

Golovin hafði þá verið inni á vellinum allan leikinn en Aspas kom inn á sem varamaður. Rússinn hljóp mest allra í leiknum og tók flesta spretti. Sjaldan hleypur sá lengst sem tekur flesta spretti og framganga Golovin vakti því talsverða athygli.

Igor Akinfeev, markvörður og fyrirliði rússneska liðsins, hefur sagt að knattspyrnuliðið tengist ekkert svindlinu í kringum Vetrarólympíuleikana í Sotsji. Akinfeev tjáði sig um málið á æfingasvæði rétt utan við Moskvu, þar sem fjöldi annarra íþróttamanna æfir einnig.

Þar æfði til að mynda frjálsíþróttalið Rússa en í þeim hópi er þrístökkvarinn Ekaterina Koneva, sem var dæmd í keppnisbann fyrir óeðlilega hátt magn testósteróns.

Vitaly Mutko er núna einn aðstoðarforsætisráðherra Rússlands.
Vitaly Mutko er núna einn aðstoðarforsætisráðherra Rússlands. AFP

Viljum trúa á töfrana

Fyrrverandi íþróttamálaráðherra landsins, Vitali Mutko, var tíður gestur á æfingasvæði landsliðsins og fagnaði hann sigrinum gegn Spáni í búningsklefanum. Mutko var í desember úr­sk­urðaður í lífstíðarbann frá Ólymp­íu­leik­um í kjöl­far af­hjúp­un­ar á skipu­lagðri lyfja­notk­un rúss­nesks íþrótta­fólks.

„Fólk vill trúa á töfra í íþróttum,“ sagði Tygart en enginn í leikmannahópi Rússlands á HM hefur fallið á lyfjaprófi.

mbl.is

Bloggað um fréttina