Minnir mig á liðið 1966

Englendingar fagna marki gegn Svíum í gær.
Englendingar fagna marki gegn Svíum í gær. AFP

Sir Geoff Hurst telur að Englendingar geti hampað heimsmeistaratitlinum í knattspyrnu en hann segir að enska liðið í dag minni á liðið sem varð heimsmeistari á heimavelli árið 1966.

Hurst skoraði þrennu 4:2 sigri Englendinga á móti Vestur-Þjóðverjum í úrslitaleiknum á Wembley árið 1966. Hann hrósar landsliðsþjálfaranum Gareth Southgate og líkir honum við Sir Alf Ramsey sem gerði Englendinga að heimsmeisturum í fyrsta og eina skiptið.

„Leikmenn enska landsliðsins eru með hugarfar sigurvegarans. Þeir eru ungir, óttalausir og njóta þess að spila,“ segir hinn 76 ára gamli Hurst í viðtali við enska blaðið Mirror.

„Ég held að við getum unnið titilinn. Síðustu tvö stórmót hafa verið hörmung en liðið hefur bætt sig gríðarlega mikið undir öruggri stjórn Southgate.“

England mætir Króatíu í undanúrslitunum á HM á Luzhniki leikvanginum í Moskvu á miðvikudaginn en á þriðjudaginn eigast Frakkland og Belgía við í fyrri undanúrslitaleiknum sem fram fer í St. Petersburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert