Belgar hafa aldrei unnið Frakka á stórmóti

Í kvöld klukkan 18 hefst fyrri undanúrslitaleikurinn á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu þegar Belgar og Frakkar mætast í Pétursborg.

Bæði lið eru með leikmenn í hæsta gæðaflokki í flestum leikstöðum og ef miðað er við úrslit í undankeppninni og stöðu þeirra á heimslistanum ætti það að koma fáum á óvart að þessi lið séu komin eins langt í keppninni og raun ber vitni.

Þetta er í sjötta skipti sem Frakkar komast í undanúrslit á HM, en Belgar munu taka þátt í sínum öðrum undanúrslitaleik. Liðin hafa mæst 73 sinnum í gegnum tíðina og hafa Belgar unnið 30 leiki en Frakkar 24. Nítján sinnum hafa leikir liðana endað með jafntefli. Þrátt fyrir að Belgar séu með heldur betra sigurhlutfall hefur þeim aldrei tekist að sigra Frakka á stórmóti.

Frakkar gera það sem þarf til að vinna leiki

Bæði lið munu mæta full sjálfstrausts til leiks. Belgar hafa átt virkilega gott mót og hafa skorað 14 mörk í fimm leikjum. Þeir hikstuðu reyndar aðeins á móti Japan í 16-liða úrslitum og voru nálægt því að detta úr keppni en mark frá Nacer Chadli í uppbótartíma kom þeim áfram. Þeir fundu sitt gamla leikform aftur í 8-liða úrslitum þegar þeir unnu afar sannfærandi 2:1 sigur á Brasilíumönnum sem voru af mörgum taldir sigurstranglegastir á HM.

Framan af keppni gerðu Frakkar það sem þurfti til þess að vinna leiki. Þeir rétt mörðu Ástralíu og Perú áður en þeir gerðu tíðindalítið 0:0 jafntefli við Dani. Þetta breyttist heldur betur þegar þeir slógu út Argentínu 4:3 í 16-liða úrslitum í magnaðri sýningu á sóknarfótbolta. Í 8-liða úrslitum slógu þeir síðan Úrúgvæ úr keppni með 2:0 sigri þar sem liðið sýndi virkilega góða frammistöðu gegn sterkum andstæðingi.

Það er erfitt að leggja mat á það hvort liðið sé líklegra. Leikmannahópar beggja liða eru ógnarsterkir og hafa þjálfarar liðanna yfir stóru vopnabúri að ráða. Breidd franska hópsins er heldur meiri, en á móti kemur að Belgar hafa betri markmann og sennilega sterkasta sóknarþríeyki keppninnar í þeim De Bruyne, Hazard og Lukaku. Líklegt er að úrslit leiksins muni ráðast af dagsformi leikmanna og hvernig þjálfarar liðanna leggja leikinn taktískt upp.

Það verður áhugavert að sjá hvort Roberto Martínez, þjálfari Belga, muni halda sig við 4-3-3 leikkerfið sem hann notaði á móti Brasilíu með góðum árangri þar sem Lukaku var færður hægra megin og De Bruyne spilaði sem „fölsk nía“. Hann gæti einnig farið aftur í 3-4-3 sem þeir spiluðu alla undankeppnina og í leikjunum á HM fram að Brasilíuleiknum. Didier Deschamps hefur haldið tryggð við 4-2-3-1 í öllum leikjunum á HM og það verður að teljast ólíklegt að hann muni breyta út frá því í kvöld.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Eden Hazard og Kylian Mbappe verða í stórum hlutverkum með …
Eden Hazard og Kylian Mbappe verða í stórum hlutverkum með liðum sínum í kvöld. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert