Er fótboltinn á leiðinni heim eftir langa útlegð?

Fyrirliðinn Jordan Henderson og Ashley Young fagna marki Englendinga á ...
Fyrirliðinn Jordan Henderson og Ashley Young fagna marki Englendinga á HM. AFP

England mætir Króatíu í kvöld í seinni undanúrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu en leikurinn fer fram í Moskvu klukkan 18. Englendingar hafa beðið lengi eftir viðunandi árangri í lokakeppni HM.

Síðast þegar England komst í undanúrslit var Króatía hluti af Júgóslavíu. Eðli málsins samkvæmt verður sigur stórt og mikið afrek fyrir báðar þjóðir. England hefur ekki spilað úrslitaleik á HM í 52 ár og Króatar hafa aldrei komist í úrslitaleikinn.

Three lions (Football's coming home) er lag sem margir knattspyrnuunnendur þekkja og lýsir vel þeirri stemningu sem er í Englandi þessa dagana. Fyrir mótið voru ekki margir sem létu sig dreyma um að England ætti möguleika á að verða heimsmeistari. En frammistaða liðsins í Rússlandi hefur heldur betur gert bál úr þeim litla neista sem var fyrir og nú er varla það mannsbarn í Englandi sem hefur ekki óbilandi trú á að fótboltinn sé að koma aftur heim þangað sem hann var fundinn upp. Liðið er ungt og fullt af orku og hæfileikum.

Southgate lyftir álögunum

Gareth Southgate hefur tekist að blása liðinu eldmóð í brjóst og þrátt fyrir að það sé ekki jafn hæfileikaríkt og „gullkynslóðin“ sem olli Englendingum svo miklum vonbrigðum mörg stórmót í röð er meira jafnvægi í liðinu og leikmenn virðast tilbúnari til að berjast hver fyrir annan.

Leið Englands að undanúrslitaleiknum hefur þó ekki verið eintómur dans á rósum. Ósannfærandi frammistaða gegn Túnis og tap fyrir Belgum í riðlakeppninni varð til þess að sumir efuðust um að liðið hefði það sem þyrfti til þess að komast alla leið. En sigur á Kólumbíu í vítaspyrnukeppni lyfti einhverjum álögum af liðinu og ensku þjóðinni. Í 2:0 sigrinum á móti Svíþjóð í 8-liða úrslitum geislaði sjálfstraustið af liðinu og leikmenn virðast trúa því að þeim séu allir vegir færir.

Luka Modric og Dejan Lovren fagna sigrinum gegn Rússum.
Luka Modric og Dejan Lovren fagna sigrinum gegn Rússum. AFP

Magnaðir miðjumenn

Að sigra Svíþjóð er eitt. Að komast í gegnum Króatíu er allt annað. Eins og við Íslendingar höfum fengið að kynnast betur en flestir er Króatía með frábært lið og eftir að Zlatko Dalic tók við sem þjálfari þann 7. október 2017 hefur liðið ekki enn tapað keppnisleik. Að öðrum ólöstuðum eru þeir Luka Modric og Ivan Rakitic bestu leikmenn liðsins. Xavi Hernández, fyrrverandi leikmaður Barcelona og spænska landsliðsins, lýsti þeim sem „tveimur af heilsteyptustu miðjumönnum heims“. Luka Modric hefur þótt spila eins og engill í Rússlandi og eru sumir á því að hann eigi skilið að hreppa nafnbótina besti leikmaður heims fyrir framgöngu sína með Real Madrid og Króatíu á þessu tímabili.

Króatar fengið minni hvíld

Króatir léku virkilega vel í riðlakeppninni og unnu sína leiki með markatölunni 7:1, samanlagt. 3:0 sigur þeirra á Argentínu er ein besta frammistaða liðs sem sést hefur á þessu heimsmeistaramóti. Ef þeir mæta í sama stuði í kvöld gætu Englendingar lent í basli. Þeir hafa þó ekki verið eins sannfærandi í útsláttarkeppninni. Þeir þurftu framlenginu og vítaspyrnukeppni á móti Danmörku og Rússlandi og það er ekki ólíklegt að þessir leikir munu sitja í þeim. Auk þess fengu þeir einum degi skemmri hvíld en Englendingarnir.

Verður miðjuspilið stöðvað?

Framvinda leiksins í kvöld mun að miklu leyti til ráðast af því hvort Gareth Southgate og lærisveinum hans tekst að stöðva miðjuspil Króata og koma í veg fyrir að Modric verði mikið í boltanum. Með því að taka þá Modric og Rakitic úr leiknum er búið að draga tennurnar að miklu leyti úr króatíska liðinu.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »