Tileinkaði sigurinn taílensku strákunum

Didier Deschamps þjálfari Frakka faðmar Paul Pogba (R) Presnel Kimpembe ...
Didier Deschamps þjálfari Frakka faðmar Paul Pogba (R) Presnel Kimpembe eftir sigurinn í gær. AFP

Paul Pogba, miðjumaðurinn sterki í liði Frakka, tileinkaði sigur Frakka gegn Belgum í undanúrslitunum á HM í gær taílensku fótboltastrákunum tólf sem bjargað var úr hellinum í Taílandi í gær.

„Þessi sigur er fyrir hetjur dagsins. Vel gert, strákar, þið eruð svo sterkir,“ sagði Pogba eftir 1:0 sigur Frakka gegn Belgum í St. Pétursborg í gærkvöld.

Í síðustu viku bauð Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, taílensku strákunum og þjálfara þeirra að mæta á úrslitaleikinn á HM sem verður í Moskvu á sunnudaginn en ekkert verður af því þar sem strákarnir eru of veikburða og þurfa að dvelja á sjúkrahúsi næstu daga eftir að hafa verið fastir inni í hellinum í rúman hálfan mánuð.

Frakkar mæta sigurvegaranum í viðureign Englendinga og Króata í kvöld í úrslitaleiknum á Luzhniki-leikvanginum í Moskvu á sunnudaginn.

mbl.is