Trúi því að England vinni HM

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær, sem gerði garðinn frægan með Manchester United á árum áður og tryggði félaginu sigurinn í Meistaradeildinni árið 1999 þegar hann skoraði sigurmarkið í dramatískum úrslitaleik á móti Bayern München, spáir því að England standi uppi sem heimsmeistari í knattspyrnu.

Ole Gunnar telur að Englendingar leggi Króata að velli í undanúrslitaleiknum í kvöld og fylgi honum eftir með því að vinna Frakka í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

„Ég held auðvitað með Englendingum. Börnin mín er ensk, þau eru fædd á Englandi, og öll hlaupa þau um í búningi enska landsliðsins. Dóttir mín er í treyju með nafni Harry Kane, yngsti sonur minn er með nafn Marcusar Rashford á bakinu en sá elsti er ekki með neitt nafn á sínum enska búningi,“ segir Solskjær í viðtali við BBC.

„Það er ekki spurning í mínum huga að England getur farið alla leið á HM. Gareth Soutgate er mjög góður andlegur þjálfari og hefur búið til gott lið og samstaðan í því er mjög góð.“

 

mbl.is