Sú fámennasta í úrslit HM í 68 ár

Króatar fagna marki Ivan Perisic í gærkvöld.
Króatar fagna marki Ivan Perisic í gærkvöld. AFP

Króatía er fámennasta þjóðin til að komast í úrslitaleikinn um heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu frá því Úrúgvæ gerði það árið 1950.

Króatar slógu Englendinga út í undanúrslitunum í gærkvöld og mæta Frökkum í úrslitaleik á Luzhnki-leikvanginum í Moskvu á sunnudaginn. Rúmar 4 milljónir manna búa í Króatíu.

„Þetta var mjög erfiður leikur. Við vissum allir hvað var í húfi og hversu mikilvæg undanúrslitin eru fyrir litla þjóð eins og Króatíu,“ sagði Ivan Perisic eftir leikinn en hann skoraði fyrra mark Króatanna og jafnaði metin.

Perisic skoraði sigurmark Króata undir lok leiksins í viðureigninni gegn Íslendingum í lokaumferð riðlakeppninnar á HM og gerði þar með vonir Íslendinga um að komast áfram í 16-liða úrslitin að engu.

„Ég vil þakka öllum sem mættu og studdu okkur í Mosvku og öllum heima í Króatíu sem hafa sent okkur ótrúlegan stuðning,“ sagði þessi 29 ára gamli leikmaður Inter sem var einn besti maður Króata í leiknum í gær.

mbl.is