Fyrrverandi gamanleikari dæmir úrslitaleikinn

Nestor Pitana.
Nestor Pitana. AFP

Argentínumaðurinn Nestor Pitana mun dæma úrslitaleik Frakka og Króata á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu á Luzhniki-leikvanginum í Moskvu á sunnudaginn.

Pitana er 43 ára gamall fyrrverandi gamanleikari sem dæmt hefur fjóra leiki til þessa á HM en hann dæmdi leiki Rússlands og Sádi-Arabíu og Svíþjóðar og Mexíkó í riðlakeppninni, viðureign Króata og Dana í 16-liða úrslitunum og leik Frakklands og Úrúgvæ í átta liða úrslitunum.

Tveir landar hans, Hernan Maidana og Juan Pablo Belatti, verða aðstoðardómarar og Hollendingurinn Bjorn Kuipers verður fjórði dómarinn í úrslitaleiknum.

Á heimsmeistaramótinu í Brasilíu fyrir fjórum árum dæmdi Pitana fjóra leiki en Argentínumaðurinn þykir mjög röggsamur og margir hafa sagt hann vera besta dómarann á HM.

Það kemur í hlut Íranans Alireza Faghani að dæma leik Englendinga og Belga sem mætast í leiknum um bronsverðlaunin í St.Petersburg á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert