Skortur á virðingu

Zlatko Dalic og Luka Modric fagna sigrinum gegn Englendingum í …
Zlatko Dalic og Luka Modric fagna sigrinum gegn Englendingum í fyrrakvöld. AFP

Zlatko Dalic landsliðsþjálfari Króata í knattspyrnu segir að skortur á virðingu til síns liðs af hálfu enskra fjölmiðla hafi drifið sína menn áfram í undanúrslitaleiknum á móti Englendingum í fyrrakvöld en Króatar fögnuðu 2:1 sigri og leika til úrslita um heimsmeistaratitilinn í fyrsta skipti í sögunni.

„Við berum alltaf virðingu fyrir mótherjum okkar og við væntum þess sama af þeim,“ sagði Dalic við fréttamenn í Moskvu í gær en hann hefur gert frábæra hluti með króatíska liðið frá því hann tók við þjálfun liðsins í október á síðasta ári.

„Kannski sýndu Englendingar eða enskir fjölmiðlar króatíska landsliðinu ekki nógu mikla virðingu sem við verðskuldum og sérstaklega þegar þú lítur á félögin sem leikmennirnir spila með. Þetta kann að hafa gefið okkur aukna hvatningu í leiknum,“ sagði Dalic en strax eftir leikinn talaði Luka Modric fyrirliði Króata í svipuðum dúr.

Dalic segir að Modric hafi verið magnaður á HM og hafi verið útnefndur maður leiksins í þremur leikjum Króata í keppninni.

Fyrir mótið var aðeins eðlilegt að tala um Ronaldo, Messi og Neymar en þeir eru allir farnir heim, þeir eru á ströndinni en aðrir hafa verið hér, eins og Luka Modric. Hann er leiðtoginn í okkar liði og er maður keppninnar og verðskuldar að hljóta gullknöttinn,“ sagði Dalic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert