Úrslitastund í Rússlandi

Mario Mandzukic og Kylian Mbappé mætast í úrslitaleiknum á morgun.
Mario Mandzukic og Kylian Mbappé mætast í úrslitaleiknum á morgun. AFP

Þá er komið að því. Stærsti knattspyrnuleikur ársins verður á morgun þegar Frakkland og Króatía mætast í úrslitaleik heimsmeistaramótsins á Luzhniki-vellinum í Moskvu. Þessi lið eru bæði taplaus og því vel að því komin að hafa komist í úrslitaleikinn.

Frakkar hafa unnið fimm leiki og gert eitt jafntefli en það var gegn Danmörku í riðlakeppninni. Króatar hafa unnið alla leiki sína á mótinu og gerðu meðal annars út um vonir okkar Íslendinga að komast áfram upp úr riðlinum.

Frakkar taldir líklegri

Frakkar eru af flestum taldir sigurstranglegri aðilinn í leiknum enda er hvergi veikan blett að finna á liðinu. Breiddin er geigvænleg og þegar lið getur leyft sér að skilja eftir leikmenn á borð við Karim Benzema utan hóps gefur það vísbendingu um hversu sterkur leikmannahópurinn er. En Frakkland er ekki bara vel mannað. Leikmenn eru agaðir og jafnvel stærstu stjörnur liðsins eru tilbúnar að leggja á sig mikla vinnu fyrir liðið.

Franska liðið undir stjórn Didier Deschamps spilar mjög varfærinn bolta og gera það sem þarf til þess að vinna leiki. Þeir verða seint sakaðir um að spila skemmtilega sóknarknattspyrnu. Leikmenn taka fáar áhættur og treysta á einstaklingsframtök til þess að klára leikina. Ef Deschamps tekst að stýra Frökkum til sigurs á sunnudaginn verður hann þriðji maðurinn í sögunni til þess að verða heimsmeistari sem leikmaður og þjálfari. Hinir tveir eru þeir Mario Zagallo og Franz Beckenbauer.

Sjá ítarlega umfjöllun um úrslitaleikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »