„Besta liðið vinnur ekki alltaf

Luka Modric var svekktur en stoltur eftir úrslitaleikinn.
Luka Modric var svekktur en stoltur eftir úrslitaleikinn. AFP

Luka Modric, miðjumaður króatíska landsliðsins í knattspyrnu og besti leikmaður heimsmeistaramótsins, sagðist í viðtali eftir úrslitaleikinn setja spurningarmerkið við ákvarðanir dómarans. Hann var þó meðvitaður um hversu stórt afrek það væri fyrir Króatíu að komast í úrslitaleikinn. 

„Ég fer heim fullur stolts yfir því hvað við gerðum. En það er ekki auðvelt að tapa úrslitaleik. Við börðumst þangað til leikurinn var búinn. Við gáfumst ekki upp þótt staðan hefði verið 4:1.“

„Ég sá ekki hvað gerðist í vítaspyrnudómnum en Perisic sagðist ekki hafa gert þetta viljandi. Fleiri hafa sagt mér að þetta var ekki víti. Í fyrsta markinu átti þetta ekki að vera aukaspyrna og þetta hefur áhrif á þig. Við yfirspiluðum Frakka en síðan kemur vítaspyrnan.“

„Við förum heim með höfuðið hátt. Við vorum svo nærri því að vinna og þetta er ekki auðvelt. Við áttum meira skilið en betra liðið vinnur ekki alltaf. Það er ástæðan fyrir því að fótbolti er besta íþrótt í heimi, jafnvel þótt það sé fúlt þegar þú lendir í því að tapa,“ sagði Luka Modric.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert