„Mér býður við þessari ákvörðun“

Nestor Pitana fékk það erfiða verkefni að taka ákvörðun um …
Nestor Pitana fékk það erfiða verkefni að taka ákvörðun um það hvort um víti hafi verið að ræða í dag. AFP

Vítaspyrnan sem kom Frakklandi í 2:1 gegn Króatíu í úrslitaleik HM í Rússlandi var heldur betur umdeild og sérfræðingar út um víða veröld voru margir á þeirri skoðun að aldrei hefði átt að dæma víti á Ivan Perisic sem fékk boltann í höndina.

Auk vítaspyrnudómsins voru flestir á þeirri skoðun að um leikaraskap hefði verið að ræða sem gaf Frakklandi aukaspyrnuna sem liðið skoraði svo úr. Frakkland vann leikinn 4:2.

BBC tók saman yfirlit yfir það sem sérfræðingar stöðvarinnar sögðu:

Alan Shearer sagði: „Það er ekki möguleiki að fáránleg ákvörðun eins og þessi muni ákvarða úrslit leiksins. Þessi úrslitaleikur á það ekki skilið eftir mót eins og þetta. Króatar hafa verið frábærir í leiknum og þeir eru að tapa út af aukaspyrnu sem var ekki aukaspyrna og víti sem var ekki víti,“ sagði Shearer.

Rio Ferdinand sagði: „Það er ekki með fullri vissu hægt að segja að þetta sé 100% víti. Hann er ekki vísvitandi að koma við boltann,“ sagði Ferdinand. „Boltinn er of nálægt til þess að hann geti brugðist við. Sú staðreynd að það tók dómarann svona langan tíma að taka þessa ákvörðun segir að hann gat ekki verið viss,“ sagði Ferdinand.

Jürgen Klinsmann sagði: „Þegar þú ert ekki viss, ekki flauta. Þetta var röng ákvörðun.“

Mark Clattenburg, dómari úrslitaleiks EM árið 2016 sagði: „Hendurnar eru í eðlilegri stöðu. Engin hreyfing í átt að bolta. Ekkert víti.“

Roy Keane sagði: „Mér býður við þessari ákvörðun. Ég er alveg brjálaður.“

Gary Neville sagði: „Dómarinn hefur augljóslega aldrei spilað leikinn.“

Lee Dixon sagði: „Þetta var ekki víti fyrir fimmaur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert