Braut odd af oflæti sínu og varð heimsmeistari

Paul Pogba með heimsmeistarabikarinn.
Paul Pogba með heimsmeistarabikarinn. AFP

„Ég hef minni rétt á því að gera mistök en aðrir. Ég fór úr því að vera dýrasti leikmaður heims í að vera mest gagnrýndi leikmaður heims.“ Þetta sagði nýkrýndur heimsmeistari Paul Pogba eftir að stuðningsmenn franska landsliðsins höfðu gert hróp að honum meðan á vináttulandsleik Frakklands og Ítalíu stóð, skömmu fyrir upphafi heimsmeistaramótsins í Rússlandi.

Þótti vera dragbítur

Það er sérstakt að hugsa til þess núna að fyrir nákvæmlega mánuði, er Frakkar léku sinn fyrsta leik á mótinu í C-riðli gegn Ástralíu, var hlutverk Paul Pogba í landsliðinu afar umdeilt. Eftir nokkuð dapurt tímabil með Manchester United á Englandi, sem gerði hann að dýrasta knattspyrnumanni heims sumarið 2016, voru margir þeirrar skoðunar, þar af margir Frakkar, að hann yrði dragbítur á möguleika liðsins að hefna fyrir ófarirnar á Evrópumótinu fyrir tveimur árum er Frakkar urðu að sætta sig við tap í úrslitaleiknum á heimavelli í París gegn Portúgal.

Pogba tókst að svara háværum gagnrýnisröddum með frábærri frammistöðu á ...
Pogba tókst að svara háværum gagnrýnisröddum með frábærri frammistöðu á stærsta sviðinu í Rússlandi. AFP

Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, kom Pogba ítrekað til varnar er landsliðhópurinn undirbjó sig fyrir heimsmeistaramótið og þær raddir sem kölluðu eftir því að Pogba yrði tekinn úr liðinu urðu háværari.

Tákngervingur þess sem amar að nútímaknattspyrnu

Vandamál Paul Pogba hafa þó, því miður, ekki alltaf einskorðast við knattspyrnuvöllinn. Í augum stærstu gagnrýnenda hans er franska ofurstjarnan tákngervingur alls þess sem amar að nútímaknattspyrnu. Knattspyrnumenn eru orðnir sín eigin vörumerki og hver einasta færsla á samfélagsmiðlum og hver nýja hárgreiðslan á fætur annarri skilar bakhjörlum þeirra milljónum króna í tekjur. Þar hefur Pogba gjarnan staðið fremstur í flokki, mörgum til mikils ama.

Hann þurfti því sárlega að svara gagnrýnendum sínum og lyfta pressunni þegar Frakkar hófu frægðarför sína í Rússlandi með leik gegn Ástralíu í Kazan 16. júní. Sigurmark leiksins kom eftir að skot Pogba hrökk af Ástralanum Aziz Behich og í netið en það var kannski frekar breytt viðhorf hans sem var helst eftirtektarvert á mótinu.

Pogba hélt sömu hárgreiðslunni í gegnum mótið og virtist hafa tamið sér aga á miðjunni sem sást of sjaldan á Englandi undanfarin tvö ár. Franska landsliðið spilar með kerfi sem hentar styrkleikum Pogba en ætlast líka til þess að hann hjálpi til í vörninni, eitthvað sem einstaklingseðli hans hefur ekki alltaf leyft. Nýr Paul Pogba virðist þó hafa mætt til leiks í Rússlandi.

Þarft að færa fórnir til að verða heimsmeistari

Fyrir úrslitaleikinn talaði Pogba fyrst og fremst um þörfina til að fórna sér fyrir liðið. „Ég vil vinna heimsmeistarakeppnina og til þess þarf að færa fórnir. Við þurfum að verjast og þó það sé ekki það sem ég geri best, geri ég það með ánægju. Ég vil hjálpa til á alla vegu mögulega.“

Hann rak svo smiðshöggið á tíma sinn í Rússlandi í úrslitaleiknum sjálfum, lék á als oddi, skoraði glæsilegt mark og lagði upp annað í 4:2-sigrinum á Króatíu. Eftir leik var hann auðmjúkur sigurvegari og tileinkaði sigurinn þeim hugrökku 12 strákum sem voru fastir í helli í Taílandi á dögunum. Það reyndist fallegur vottur um virðingu frá leikmanni sem hefur of oft komist í fréttirnar fyrir yfirgengilegan lífstíl utan vallar í stað tilburða innan hans.

Tekst Paul Pogba að fara fyrir Manchester United með sama ...
Tekst Paul Pogba að fara fyrir Manchester United með sama hætti í vetur? AFP

Pogba hefur á einu sumri farið úr því að vera ofdekruð utangátta ofurstjarna í að skrá nafn sitt á spjöld sögunnar. Hann er fyrsti leikmaður Manchester United síðan 1966 til að verða heimsmeistari og hefur sýnt það og sannað að, undir stjórn þjálfara sem kann að nota hann, getur hann verið atkvæðamikill í allra bestu liðunum.

Skjóti þau vandamál sem grafið hafa undan orðspori Pogba aftur upp kollinum á næsta tímabili með United þarf kannski frekar að beina spjótunum að þjálfara hans sem tekst ekki að draga fram það besta úr leikmanni sem fór fyrir nýkrýndum heimsmeisturum á stærsta sviði íþróttarinnar. Of oft hefur Paul Pogba verið gerður að blóraböggli fyrir allt það sem úrskeiðis fer hjá liði hans. Hann hefur nú sýnt, að þegar vel gengur er það einnig, oft og tíðum, honum að þakka.

mbl.is