Frakkar spiluðu ekki fótbolta

Dejan Lovren í leiknum í gær.
Dejan Lovren í leiknum í gær. AFP

Króatíski varnarmaðurinn Dejan Lovren segir að Króatar hafi spilað mikið betri fótbolta en Frakkar er landslið þjóðanna mættust í úrslitaleik HM í fótbolta í Rússlandi í gær. Frakkar unnu leikinn 4:2 og eru heimsmeistarar. 

Lovren sagði einnig að Frakkar spiluðu ekki fótbolta. „Þeir voru með eina leikaðferð, þeir biðu eftir færunum og skoruðu. Þeir spiluðu alla leiki þannig, þetta var ekki fótbolti. Við spiluðum mun betur. Auðvitað eru það vonbrigði," sagði Lovren í samtali við króatíska fjölmiðla eftir leikinn. 

Frakkar fengu vítaspyrnu í stöðunni 1:1 er hönd var dæmd á Ivan Perisic og skoraði Antoine Griezmann úr spyrnunni. Nestor Pitana, dómari leiksins, hefur verið mikið gagnrýndur í kjölfarið og skilur Lovren lítið í dómgæslunni. 

„Það skilur enginn þessar reglur. Þetta var af stuttu færi og okkar maður gat ekki komið í veg fyrir þetta. Það þarf að bæta myndbandsdómgæsluna. Það segja margir að þetta hafi ekki verið víti, en hvað getum við gert núna?" sagði Lovren að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert