Heimsmeistararnir hylltir í París

AFP

Leikmenn og þjálfarar franska landsliðsins í knattspyrnu voru hylltir á Champs-Élysées-breiðgötunni frægu í París í Frakklandi eftir að þeir sneru heim frá frægðarförinni í Rússlandi þar sem þeir voru krýndir heimsmeistarar eftir sigur á Króatíu í úrslitaleiknum í Moskvu.

Ferðalag franska landsliðsins hófst í Kazan er liðið hafði betur gegn Ástralíu í opnunarleik C-riðilsins, 2:1, þökk sé marki Antoine Griezmann og sjálfsmarki Ástrala. Næsta bráð voru Perúmenn en ungstirnið Kylian Mbappé skoraði sigurmark leiksins, 1:0. Að lokum voru Frakkar þátttakendur í eina markalausa jafntefli keppninnar gegn Danmörku en stigið dugði þeim til sigurs í riðlinum.

AFP

Lionel Messi og félagar hans í Argentínu biðu í 16-liða úrslitunum og höfðu Frakkar þar betur í stórskemmtilegum leik, 4:3, þökk sé mörkum frá Griezmann, Benjamin Pavard og Mbappé sem skoraði í tvígang. Næst vannst 2:0-sigur á Úrugvæ í 8-liða úrslitunum eftir að Raphael Varane og Griezmann skoruðu mörkin í síðari hálfleik og sprækt lið Belgíu laut í lægra haldi í undanúrslitunum eftir að varnartröllið Samuel Umtit stangaði inn eina mark leiksins.

AFP

Frakkar unnu svo Króatíu í úrslitaleiknum í markaveislu, 4:2. Króatar urðu fyrir því óláni að skora sjálfsmark snemma leiks áður en þeir Griezmann, Pogba og Mbappé bættu við en sá síðastnefndi var að lokum valinn besti ungi leikmaður mótsins.

Það var að vonum gífurleg stemning í París er hópur franska landsliðsins mætti til að fagna með löndum sínum í höfuðborginni.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert