Þreyttu frumraun á HM og hættu í dag

Hernan Dario Gomez.
Hernan Dario Gomez. AFP

Tvær þjóðir þreyttu frumraun sína á heimsmeistaramóti í Rússlandi í sumar, Ísland og Panama, og þjálfarar beggja liða tóku þá ákvörðun að hætta í starfi í dag.

Eins og flestum er kunnugt ákvað Heimir Hallgrímsson að hætta sem landsliðsþjálfari karlaliðsins í knattspyrnu í morgun en kollegi hans hjá Panama, Kólumbíumaðurinn Hernan Dario Gomez, hefur nú gert hið sama.

Gomez stýrði Panama til hetjulegs sigurs gegn Bandaríkjunum í undankeppni HM til að koma þjóðinni í sína fyrstu lokakeppni. Í Rússlandi tapaði Panama svo öllum þremur leikjum sínum í G-riðli, gegn Englandi, Belgíu og Túnis með markatöluna 2:11.

Hinn 62 ára Gomez hefur nú ákveðið að stíga til hliðar en hann var þó ekki sjálfur að taka þátt á sínu fyrsta heimsmeistaramóti. Hann kom löndum sínum í Kólumbíu á HM árið 1998 og stýrði svo Ekvador í keppninni fjórum árum síðar.

mbl.is