Afþakkaði silfurmedalíuna

Nikola Kalinic á Laugardalsvellinum síðasta haust.
Nikola Kalinic á Laugardalsvellinum síðasta haust. mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson

Króatinn Nikola Kalinic var sendur heim af heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar eftir að hafa neitað að koma inn á í fyrsta leik liðsins gegn Nígeríu í síðasta mánuði en Króatía átti eftir að fara alla leið í úrslitaleikinn.

Þar urðu Króatar að sætta sig við silfur er þeir töpuðu 4:2-gegn Frökkum en Kalinic var þá löngu farinn heim eftir að hafa haldið sig á varamannabekknum vegna meiðsla þegar Zlatko Dalic, þjálfari Króatíu, ætlaði að setja hann inn á.

Króatíska knattspyrnusambandið ætlaði að veita honum silfurmedalíu þar sem hann var hluti af hópnum sem fór til Rússlands en hann er sagður hafa afþakkað hana.

„Sama og þegið, ég spilaði ekki í Rússlandi,“ er það sem fjölmiðlar höfðu eftir framherjanum sem spilar fyrir AC Milan á Ítalíu. Kalinic er þrítugur og er alls óvíst hvort hann eigi afturkvæmt í króatíska landsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert