Mistök að láta Katar halda HM

Sepp Blatter, fyrrverandi forseti FIFA.
Sepp Blatter, fyrrverandi forseti FIFA. AFP

Sepp Blatter, fyrrverandi forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, segir að Katar hefði ekki átt að fá að halda HM 2022, sem hefst eftir 12 daga.

„Þetta er of lítið land. Fótbolti og HM eru of stór fyrir það. Þetta var slæmur kostur og ég var ábyrgur fyrir því sem forseti á þessum tíma.

Þökk sé atkvæðunum fjórum frá [Michel] Platini og hans teymi [hjá UEFA] fékk Katar að halda HM í stað Bandaríkjanna. Það er sannleikurinn,“ sagði Blatter í samtali við svissneska dagblaðið Tages Anzeiger.

Hann bætti því við að FIFA hefði árið 2012 breytt skilyrðum um hvaða þjóðir mættu halda heimsmeistaramót vegna gagnrýni sem sneri að misnotkun á farandverkamönnum sem byggðu leikvanga í Katar í aðdraganda mótsins.

„Upp frá því var ákveðið að taka meira tillit til félagsmála og mannréttinda.“

Blatter sagði þá einnig að Nicolas Sarkozy þáverandi Frakklandsforseti hefði árið 2010 þrýst á FIFA um að styðja við Katar er þjóðin leitaði eftir að fá að halda HM.

Katörsk yfirvöld hefðu svo stuttu eftir að hafa unnið sér inn réttinn til að halda HM 2022 keypt herflugvélar að andvirði 14,6 milljarða bandaríkjadala af frönskum stjórnvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert