Falsaðar áhorfendatölur í Katar?

Nóg var af auðum sætum á leik Senegals og Hollands …
Nóg var af auðum sætum á leik Senegals og Hollands í dag. AFP/Odd Andersen

Mótahaldarar á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu í Katar voru gagnrýndir enn á ný í dag fyrir að gefa upp rangar áhorfendatölur á leik Senegals og Hollands í A-riðli keppninnar sem fram fór í Doha í dag.

Sportsmail greinir frá þessu en á upphafsleik mótsins, þar sem Katar tók á móti Ekvador í A-riðlinum, tilkynnti vallarþulurinn á Al Bayt-vellinum að 67.000 manns hefðu verið a vellinum en völlurinn tekur einungis 60.000 manns í sæti.

Þá tilkynnti vallarþulur á leik Senegals og Hollands að 41.721 áhorfandi hefði fylgst með leiknum í stúkunni en völlurinn tekur 40.000 manns í sæti.

Þá var augljóst, þegar horft var yfir stúkuna í gegnum allan leikinn á Al Thumama-leikvanginum, að það var mikið af auðum sætum á leikvanginum. 

Þá hafa bæði stuðningsmenn og þeir sem hafa fjallað um mótið fyrir hina ýmsu fjölmiðla gagnrýnt stemninguna á leikjunum og sagt hana vera við frostmark oft og á tíðum, að því er fram kemur í frétt Sportsmail um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert