Afar óvænt tap Argentínu í fyrsta leik

Salem Al-Dawsari fagnar að hætti hússins.
Salem Al-Dawsari fagnar að hætti hússins. AFP/Glyn Kirk

Sádi-Arabía gerði sér lítið fyrir og vann 2:1-endurkomusigur á Argentínu í fyrsta leik liðanna í C-riðli á HM karla í fótbolta í Katar í dag. 

Lionel Messi kom Argentínu yfir úr vítaspyrnu á 10. mínútu en Saleh Al-Shehri jafnaði fyrir Sádi-Arabíu á 47. mínútu og Salem Al-Dawsari skoraði sigurmarkið fimm mínútum síðar.

Mexíkó og Pólland eigast við í hinum leik riðilsins klukkan 16. 

Lionel Messi er að keppa á sínu síðasta heimsmeistaramóti. Hann var nálægt því að skora fyrsta markið strax á 2. mínútu þegar hann komst í fínt færi í teignum en Mohammed Al-Owais varði vel frá honum.

Markvörðurinn kom hins vegar engum vörnum við á 10. mínútu þegar Argentína fékk víti eftir að Saud Abdulhamid togaði Leandro Paredes niður innan teigs. Messi fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. 

Lionel Messi fagnar fyrsta marki leiksins.
Lionel Messi fagnar fyrsta marki leiksins. AFP/Odd Andersen

Messi kom boltanum aftur í markið á 23. mínútu er hann slapp einn í gegn og kláraði vel. Markið var hins vegar dæmt af vegna rangstöðu og staðan því áfram 1:0.

Argentína skoraði annað mark á 28. mínútu þegar Lautaro Martínez slapp í gegn og skoraði. Aftur fór flaggið á loft og aftur taldi markið ekki. Sjö mínútum síðar komu Argentínumenn boltanum í markið í fjórða skiptið, en aftur var dæmd rangstaða á Martínez og staðan enn 1:0, sem var staðan í hálfleik. 

Saleh Al-Shehri fagnar óvæntu jöfnunarmarki.
Saleh Al-Shehri fagnar óvæntu jöfnunarmarki. AFP/Kirill Kudryavtsev

Sú staða breyttist í 1:1, strax á þriðju mínútu seinni hálfleiks er Saleh Al-Shehri kláraði vel innan teigs eftir snögga sókn og sendingu frá Firas Al-Buraikan. Sádarnir voru snöggir að snúa vörn í sókn, eftir að þeir unnu boltann á miðsvæðinu og Al-Shehri hafði betur í baráttu við Cristian Romero í teignum og skilaði boltanum í fjærhornið. 

Aðeins fimm mínútum síðar var staðan orðin 2:1, Sádi-Arabíu í vil. Salem Al-Dawsari lék þá á nokkra varnarmenn Argentínu og skoraði með stórkostlegu skoti í bláhornið fjær, utarlega í teignum. 

Lionel Messi skorar fyrsta mark leiksins.
Lionel Messi skorar fyrsta mark leiksins. AFP/Odd Andersen

Argentínumönnum tókst illa að skapa sér færi eftir það og Sádarnir vörðust mjög vel. Var staðan því enn þá 2:1, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Messi fékk færi til að jafna á 84. mínútu en hann skallaði nokkuð beint á Al-Owais í markinu, úr góðu færi í teignum. 

Það reyndist besta færi Argentínumanna í seinni hálfleik, en afar illa gekk að brjóta þétt lið Sádi-Arabíu eftir leikhléið. Arabíuþjóðin fagnaði því afar óvæntum sigri. 

Stuðningsmenn Argentínu eru mættir á völlinn.
Stuðningsmenn Argentínu eru mættir á völlinn. AFP/Juan Mabromata

Lið Argentínu:
Mark: Emiliano Martínez.
Vörn: Nahuel Molina, Cristian Romero (Lisandro Martínez 59.), Nicolás Otamendi, Nicolás Tagliafico (Marcos Acuna 71.)
Miðja: Angel Di Maria, Rodrigo De Paul, Leandro Paredes (Enzo Fernández 59.), Papu Gómez (Julián Álvarez 59.).
Sókn: Lionel Messi, Lautaro Martínez. 

Lið Sádi-Arabíu: 
Mark: Mohammed Al-Owais
Vörn: Saud Abdulhamid, Hassan Al Tambakti, Ali Al-Boleahi, Yasir Al-Shahrani (Mohammed Al-Burayk 90.)
Miðja: Firas Al-Buraikan (Haitham Mohammed Asiri 89.), Mohamed Kanno, Abdulelah Al Malki, Salman Al-Faraj (Nawaf Al-Abed 45. Abdulelah Al-Amri 89.), Salem Al-Dawsari
Sókn: Saleh Al-Sheheri (Sultan Al-Ganham 78.)

mbl.is