Þjóðverjar ætla í mál við FIFA

Nokkrar þátttökuþjóðir á HM ætluðu sér að bera regnbogaarmbandið í …
Nokkrar þátttökuþjóðir á HM ætluðu sér að bera regnbogaarmbandið í leikjum sínum. AFP/Andre Pain

Forráðamenn þýska knattspyrnusambandsins ætla í mál við Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, eftir að sambandið meinaði fyrirliðum að bera regnbogaarmbandið á heimsmeistaramótinu í Katar sem nú stendur yfir.

Það er þýski miðillinn Bild sem greinir frá þessu en forráðamenn FIFA hótuðu að beita þeim þjóðum, sem myndi spila með regnbogaarmbandið á HM, refsiaðgerðum.

Refsiaðgerðir FIFA fólu meðal annars í sér fjársekt og þá stóð til að spjalda þá leikmenn sem myndu mæta til leiks með regnbogaarmband á hendinni.

Í frétt Bild kemur meðal annars fram að þýska knattspyrnusambandið ætli sér að fara með málið fyrir CAS, Alþjóða íþróttadómstólinn.

Í gær bárust fréttir af því að forráðamenn bandaríska bjórframleiðandans Budweiser ætluðu sér einnig í mál við FIFA eftir að tilkynnt var, tveimur dögum fyrir HM, að enginn bjór yrði seldur á leikvöngunum átta þar sem leikið er á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert