HM í dag: Lið Gana

Daniel Amartey og Thomas Partey leika báðir í ensku úrvalsdeildinni.
Daniel Amartey og Thomas Partey leika báðir í ensku úrvalsdeildinni. AFP/Khaled Desouki

Gana er komið í fjórða sinn í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í fótbolta.

Gana tapaði 2:3 fyrir Portúgal í fyrstu umferðinni í Katar en vann Suður-Kóreu 3:2 í annarri umferð.

Gana er í 61. sæti á heimslista FIFA, í ellefta sæti af Afríkuþjóðum. Liðið lék áður á HM 2006, 2010 og 2014 en Ganabúar komust í 16-liða úrslit í fyrstu tilraun árið 2006 og bættu um betur með því að fara í 8-liða úrslitin í Suður-Afríku árið 2010.

Gana vann sinn riðil í undankeppni HM í Afríku, hafði betur gegn Suður-Afríku á markatölu en Eþíópía og Simbabwe voru einnig í riðlinum. Gana mætti síðan Nígeríu í umspili um sæti á HM. Liðin gerðu tvö jafntefli, 0:0 og 1:1, en Gana komst á HM á markinu sem liðið gerði á útivelli.

André Ayew, fyrrverandi leikmaður Swansea og West Ham, er reyndasti maður Ganabúa og sá leikjahæsti í sögu landsliðsins með 110 leiki. Thomas Partey, miðjumaður Arsenal og Jordan Ayew, framherji Crystal Palace, eru í stórum hlutverkum í tiltölulega reynslulitlu liði sem er með marga unga leikmenn í hópnum.

Otto Addo tók við liði Gana fyrr á þessu ári.
Otto Addo tók við liði Gana fyrr á þessu ári. AFP/Khaled Desouki

Gana lék fjóra vináttuleiki fyrir HM og tapaði fyrst 1:2 fyrir Katar og síðan 0:3 gegn Brasilíu en vann Níkaragva 1:0. Í síðustu viku vann Gana síðan sigur á Sviss, 2:0, í Abu Dhabi.

Otto Addo, 47 ára gamall fyrrverandi landsliðsmaður Gana, þjálfar liðið en hann tók við því í febrúar á þessu ári eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari og síðan bráðabirgðaþjálfari í nokkra mánuði. Hann starfaði áður sem aðstoðarþjálfari og afreksþjálfari hjá þýsku liðunum Dortmund, Mönchengladbach og Hamburger SV, og hjá danska liðinu Nordsjælland. Addo fæddist í Þýskalandi og lék þar allan sinn feril.

LIÐ GANA:

Markverðir:
1 Lawrence Ati-Zigi, 25 ára, St. Gallen (Sviss), 11 leikir
12 Ibrahim Danlad, 19 ára, Asante Kotoko, 4 leikir
16 Abdul Manaf Nurudeen, 23 ára, Eupen (Belgíu), 2 leikir

Varnarmenn:
2 Tariq Lamptey, 22 ára, Brighton (Englandi), 2 leikir
3 Denis Odoi, 34 ára, Club Brugge (Belgíu), 4 leikir
4 Mohammed Salisu, 23 ára, Southampton (Englandi), 3 leikir, 1 mark
14 Gideon Mensah, 24 ára, Auxerre (Frakklandi), 12 leikir
15 Joseph Aidoo, 27 ára, Celta Vigo (Spáni), 11 leikir
17 Baba Rahman, 28 ára, Reading (Englandi), 48 leikir, 1 mark
18 Daniel Amartey, 27 ára, Leicester (Englandi), 46 leikir
23 Alexander Djiku, 28 ára, Strasbourg (Frakklandi), 18 leikir, 1 mark
26 Alidu Seidu, 22 ára, Clermont (Frakklandi), 4 leikir

Miðjumenn:
5 Thomas Partey, 29 ára, Arsenal (Englandi), 40 leikir, 13 mörk
6 Elisha Owusu, 25 ára, Gent (Belgíu), 3 leikir
8 Daniel-Kofi Kyereh, 26 ára, Freiburg (Þýskalandi), 15 leikir
10 André Ayew, 32 ára, Al-Sadd (Katar), 110 leikir, 23 mörk
13 Daniel Afriyie, 21 árs, Hearts of Oak, 7 leikir, 3 mörk
20 Mohammed Kudus, 22 ára, Ajax (Hollandi), 18 leikir, 4 mörk
21 Salis Abdul Samed, 22 ára, Lens (Frakklandi), 1 leikur

Sóknarmenn:
7 Abdul Fatawu Issahaku, 18 ára, Sporting Lissabon (Portúgal), 13 leikir, 1 mark
9 Jordan Ayew, 31 árs, Crystal Palace (Englandi), 84 leikir, 19 mörk
11 Osman Bukarin 23 ára, Rauða stjarnan (Serbíu), 7 leikir, 1 mark
19 Inaki Williams, 28 ára, Athletic Bilbao (Spáni), 3 leikir
22 Kamaldeen Sulemana, 20 ára, Rennes (Frakklandi), 13 leikir
24 Kamal Sowah, 22 ára, Club Brugge (Belgíu), 1 leikur
25 Antoine Semenyo, 22 ára, Bristol City (Englandi), 4 leikir, 1 mark

mbl.is