Richarlison aðalmaðurinn er Brasilía byrjaði á sigri

Brasilíumenn fagna marki Richarlison í kvöld.
Brasilíumenn fagna marki Richarlison í kvöld. AFP/Andrej Isakovic

Brasilía vann sannfærandi 2:0-sigur á Serbíu í fyrsta leik liðanna á heimsmeistaramóti karla í fótbolta í Katar. Liðin leika í H-riðli líkt og Sviss og Kamerún.

Þrátt fyrir mikla yfirburði var það þolinmæðisverk fyrir Brassana að brjóta ísinn. Það var Richarlison sem tókst það að lokum en hann kom Brasilíu yfir á 62. mínútu áður en hann bætti við öðru marki á 73. mínútu.

Sviss vann Kamerún í fyrsta leiknum í H-riðlinum í morgun, 1:0.

Richarlison skorar sitt annað mark í kvöld.
Richarlison skorar sitt annað mark í kvöld. AFP/Giuseppe Cacace

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en Brasilíumenn höfðu nokkra yfirburði án þess þó að skapa sér nein færi. Serbía lá til baka og reyndi að beita skyndisóknum en fékk fá tækifæri til þess. Casemiro, leikmaður Manchester United á Englandi var fyrstur til þess að reyna almennilega á Milinkovic-Savic í marki Serbíu en fast skot Brassans af löngu færi var varið.

Það var svo Raphinha, leikmaður Barcelona á Spáni sem fékk fyrsta færi leiksins á 35. mínútu en hann komst þá í frábæra stöðu í teig Serbíu eftir skemmtilegt þríhyrningsspil við Lucas Paquetá. Skot Raphinha var hins vegar laust og beint á Milinkovic-Savic sem varði auðveldlega frá honum.

Staðan í hálfleik var 0:0 en leikplan Serbíu gekk fullkomlega upp í fyrri hálfleik. Liðið gaf svo gott sem engin færi á sér og hélt leiknum í ágætis skefjum.

Brasilíumaðurinn Lucas Paquetá brýtur á Serbanum Aleksandar Mitrovic í leiknum.
Brasilíumaðurinn Lucas Paquetá brýtur á Serbanum Aleksandar Mitrovic í leiknum. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Seinni hálfleikur var minna en mínútu gamall þegar fyrsta dauðafærið leit dagsins ljós. Milinkovic-Savic átti þá vonda sendingu frá marki Serbíu beint fyrir fætur Raphinha í algjöru dauðafæri en markvörðurinn bjargaði eigin skinni og varði.

Eftir klukkutíma leik átti vinstri bakvörður Brasilíu, Alex Sandro, frábæra tilraun en hann lét þá vaða af um 30 metra færi. Skotið var mjög fast og small í stöng serbneska marksins. Einungis tveimur mínútum síðar kom svo loks markið sem braut ísinn en Richarlison fylgdi þá eftir skoti Vinícius Jr. af stuttu færi. Milinkovic-Savic hafði varið glæsilega frá Vinícius Jr. en því miður fyrir hann og aðra Serba datt boltinn beint fyrir fætur Richarlison í markteignum sem skoraði í opið mark og kom Brasilíu í 1:0.

Richarlison var þó ekki hættur en hann skoraði mark mótsins hingað til á 73. mínútu þegar hann kom Brasilíu í 2:0. Vinícius Jr. átti þá fyrirgjöf frá vinstri sem Richarlison tók við áður en hann smellti boltanum í bláhornið með glæsilegri bakfallsspyrnu, algjörlega óverjandi fyrir Milinkovic-Savic.

Á 81. mínútu mátti engu muna að þriðja mark Brasilíu kæmi en Casemiro átti þá frábært skot í þverslánna. Tæpri mínútu síðar átti varamaðurinn Rodrygo fína tilraun rétt utan teigs en Milinkovic-Savic varði mjög vel frá honum. Skothríðin hélt áfram en næstur til að reyna fyrir sér var annar varamaður, Fred, en Milinkovic-Savic varði þá enn eitt skotið.

Síðustu mínútur leiksins voru svo með rólegra móti en bæði lið virtust vera búin að sætta sig við úrslit leiksins. Var greinilegt að liðin voru farin að reyna að spara orku fyrir komandi átök en Brasilía mætir Sviss í næstu umferð og Serbía spilar við Kamerún.

Stuðningsmenn Brasilíu fyrir leikinn í kvöld.
Stuðningsmenn Brasilíu fyrir leikinn í kvöld. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Lið Brasilíu: 
Mark: Alisson.
Vörn: Danilo, Thiago Silva, Marquinhos, Alex Sandro.
Miðja: Lucas Paquetá (Fred 76.), Casemiro, Neymar (Antony 80.).
Sókn: Raphinha (Gabriel Martinelli 87.), Richarlison (Gabriel Jesús 79.), Vinícius Jr. (Rodrygo 76.).

Lið Serbíu:
Mark: Vanja Milinkovic-Savic.
Vörn: Nikola Milenkovic, Milos Veljkovic, Strahinja Pavlovic.
Miðja: Andrija Zivkovic (Nemanja Radonjic 57.), Sergej Milinkovic-Savic, Nemanja Gudelj (Ivan Ilic 57.), Sasa Lukic (Darko Lazovic 66.), Filip Mladenovic (Dusan Vlahovic 66.).
Sókn: Dusan Tadic, Aleksandar Mitrovic (Nemanja Maksimovic 83.).

Neymar með boltann í upphitun ásamt liðsfélögum sínum.
Neymar með boltann í upphitun ásamt liðsfélögum sínum. AFP/Giuseppe Cacace
mbl.is