Sterkur sigur Svisslendinga

Breel Embolo fagnaði ekki marki sínu gegn Kamerún, þar sem …
Breel Embolo fagnaði ekki marki sínu gegn Kamerún, þar sem hann er fæddur í landinu. AFP/Fabrice Coffrini

Breel Embolo skoraði sigurmark Sviss er liðið vann Kamerún, 1:0, í fyrsta leik G-riðils á HM karla í fótbolta í Katar í dag. Markið kom á 48. mínútu með skoti úr teignum eftir fyrirgjöf frá Xherdan Shaqiri. 

Auk Sviss og Kamerún eru Brasilía og Serbía einnig í riðlinum, en þau eigast við klukkan 19 í kvöld.

Kamerún fékk tvö fyrstu góðu færi leiksins á 10. mínútu. Fyrst átti Bryan Mbeumo fast skot úr þröngu færi, sem Yann Sommer varði, en beint fyrir fætur Ekambi sem setti boltann yfir úr góðri stöðu í teignum. 

Eric Choupo-Moting slapp í gegn snemma leiks en Yann Sommer …
Eric Choupo-Moting slapp í gegn snemma leiks en Yann Sommer varði frá honum. AFP/Glyn Kirk

Granit Xhaka átti fyrstu tilraun Svisslendinga tveimur mínútum síðar, en hann skaut vel yfir af löngu færi. Kamerún hélt hins vegar áfram að skapa sér hættulegri færi því Eric Choupo-Moting slapp einn í gegn eftir stundarfjórðungs leik en Yann Sommer gerði vel í að verja frá honum. 

Bestu færi Sviss í fyrri hálfeik komu á fimm síðustu mínútunum og voru keimlík. Fyrst skallaði Nico Elvedi rétt fram hjá eftir horn og síðan Manuel Akanji. Ekkert var hins vegar skorað í fyrri hálfleiknum og voru hálfleikstölur 0:0. 

Svisslendingar voru ekki lengi að komast yfir í seinni hálfleik því Breel Embolo, sem er fæddur í Kamerún, skoraði fyrsta markið á 48. mínútu er hann kláraði af öryggi í teignum eftir fyrirgjöf frá Xherdan Shaqiri frá hægri. 

Kamerúninn Nicolas Nkoulou og Breel Embolo hjá Sviss eigast við …
Kamerúninn Nicolas Nkoulou og Breel Embolo hjá Sviss eigast við í dag. AFP/Issouf Sanogo

Kamerún fékk eitthvað af færum til að jafna. Bryan Mbeumo fékk þröngt færi, þar sem Yann Sommer sá við honum, og skömmu síðar átti Frank Anguissa hættulegt skot, en aftur varði Sommer. 

Sviss var svo hársbreidd frá því að tvöfalda forskotið á 66. mínútu en André Onana í marki Kamerún varði stórglæsilega frá Ruben Vargas, þegar Vargas átti fast skot að marki úr teignum. 

Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn gekk liðunum verr að skapa sér færi og fjölmargar skiptingar beggja liða hægðu á leiknum. Var staðan því enn 1:0, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. 

Leikmenn Sviss hita upp fyrir leik.
Leikmenn Sviss hita upp fyrir leik. AFP/Kirill Kudryavtsev

Granit Xhaka átti fínt skot af 20 metra færi eða svo á 88. mínútu en André Onana varði og sá til þess að Kamerún átti enn möguleika á að ná jöfnunarmarki. Afríkuþjóðinni tókst hins vegar illa að skapa sér færi og eins marks sigur Sviss varð raunin. 

Lið Sviss:
Mark: Yann Sommer.
Vörn: Silvian Widmer, Manuel Akanji, Nico Elvedi, Ricardo Rodriguez (Eray Cömert 90.).
Miðja: Xherdan Shaqiri (Noah Okafor 71.), Remo Feuler, Djibril Sow (Fabian Frei 71.), Granit Xhaka, Ruben Vargas (Fabian Rieder 81.).
Sókn: Breel Embolo (Haris Seferovic 71.).

Lið Kamerún:
Mark: André Onana.
Vörn: Collins Fai, Jean-Charles Castelletoo, Nicolas N‘Koulou, Nouhou Toio.
Miðja: Frank Anguissa, Martin Hongla(Gaël Ondoua 69.), Samuel Gouet.
Sókn: Bryan Mbeumo (Nicolas Ngamaleu 81., Eric Choupo-Moting (Vincent Aboubakar 74.), Karl Ekambi (Georges-Kévin N'Koudou 74.).

mbl.is