Stuðningsmönnum leyft að klæðast regnbogalitum

Regnbogafáni með merki Knattspyrnusambands Wales á.
Regnbogafáni með merki Knattspyrnusambands Wales á. AFP/Nicolas Tucat

Neil Mooney, formaður Knattspyrnusambands Wales, segir að FIFA hafi svarað bréfi frá sambandinu, þar sem kvartað var yfir því að regnbogahattar og annar klæðnaður með regnbogum hafi verið gerður upptækur fyrir leik liðsins gegn Bandaríkjunum á HM karla á mánudag, á þann veg að slíkur klæðnaður verði framvegis leyfður.

„Við vorum í áfalli. Regnbogahatturinn (e. bucket hat) var búinn til af okkur, hann er gerður með styrk frá sambandinu. Að hann hafi verið tekinn af höfði stuðningsmanna okkar, þar á meðal starfsmönnum okkar, var heldur óþægileg upplifun fyrir þau.

Við vorum hneyksluð á því og skrifuðum FIFA bréf þar sem við greindum frá því að okkur hafði verið lofað opnu heimsmeistaramóti og að það sé augljóslega ekki tilfellið hér þar sem regnbogahattar og -klæði eru tekin af fólki,“ sagði Mooney í samtali við Sky Sports.

Leikurinn fór fram á Ahmed bin Ali-vellinum og í svari FIFA sagði upphaflega að fjarlæging á slíkum klæðnaði hafi einskorðast við þann völl.

Frekar skrítið svar

„FIFA svaraði því til að þetta hafi verið svæðisbundið vandamál á þessum tiltekna leikvangi, sem er frekar skrítið svar því þetta gerðist fyrir stuðningsmenn annarra liða á öðrum leikvöngum líka.

Sem betur fer sendi FIFA okkur annað svar fyrir nokkrum klukkutímum síðan þar sem okkur var tjáð að stuðningsmönnum okkar verði leyft að klæðast regnbogalitunum, þar á meðal höttum,“ hélt hann áfram.

„Við erum ánægðir með að stuðningsmenn geti gert það því fyrir það fyrsta hefði aldrei átt að gera slíkan klæðnað upptækan.

Við erum með skriflega staðfestingu á þessu frá FIFA, að það sé í lagi fyrir stuðningsmenn að klæðast því sem þeir vilja á morgun,“ bætti Mooney við í samtali við Sky Sports.

Wales mætir Íran í fyrsta leik annarrar umferðar HM í Katar í fyrramálið.

mbl.is