Jafntefli og Englendingar í efsta sætinu

Harry Maguire var yfirburðamaður í enska liðinu í kvöld og …
Harry Maguire var yfirburðamaður í enska liðinu í kvöld og hefur hér betur gegn Josh Sargent. AFP/Glyn Kirk

England og Bandaríkin gerðu markalaust jafntefli í seinni leik dagsins í B-riðli heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Katar í kvöld.

Englendingar eru þar með efstir fyrir lokaumferðina með 4 stig, Íran er með 3 stig, Bandaríkin 2 og Wales 1. Þá mætast Íran og Bandaríkin í nánast hreinum úrslitaleik um sæti í 16-liða úrslitum og England mætir Wales.

Enska liðið er með sæti í 16-liða úrslitunum í höndunum eftir þessi úrslit. Íran og Bandaríkin komast aldrei bæði uppfyrir Englendinga og Walesbúar þyrftu að vinna fjögurra marka sigur á Englendingum til að komast áfram á þeirra kostnað.

Eftir varfærnislegar upphafsmínútur fékk England mjög gott færi á 10. mínútu eftir hraða sókn þegar Harry Kane skaut að marki en varnarmaður komst fyrir skotið og boltinn fór af honum í horn.

Haji Wright átti fyrstu tilraun Bandaríkjanna á 17. mínútu þegar hann skallaði framhjá marki Englands.

Jack Pickford slær boltann frá eftir eina af mörgum hornspyrnum …
Jack Pickford slær boltann frá eftir eina af mörgum hornspyrnum Bandaríkjamanna í seinni hálfleik. AFP/Patrick T. Fallon

Weston McKennie fékk gott færi rétt utan markteigs á 26. mínútu eftir fína sókn Bandaríkjanna en skaut yfir markið.

Christian Pulisic var hársbreidd frá því að koma Bandaríkjunum yfir þegar hann tók óvænt skot frá vítateig og boltinn small í þverslá enska marksins.

Bandaríska liðið hélt áfram að ógna og á 41. mínútu brunaði bakvörðurinn Sergino Dest inn í vítateig Englendinga sem björguðu naumlega í horn. Rétt á eftir skallaði Pulisic framhjá marki Englands.

Weston McKennie miðjumaður Bandaríkjanna með boltann í leiknum í dag.
Weston McKennie miðjumaður Bandaríkjanna með boltann í leiknum í dag. AFP/Kiril Kudryavtsev

England átti hættulega sókn á 45. mínútu þar sem Luke Shaw komst að endamörkum vinstra megin og renndi út á Bukayo Saka sem skaut yfir bandaríska markið.

Mason Mount komst í besta færi Englands í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar hann átti hörkuskot frá vítateig og Matt Turner varði mjög vel í horn.

Bandaríkjamenn áttu fyrstu hættulegu sókn síðari hálfleiks á 49. mínútu og henni lauk með skoti McKennie hátt yfir mark Englands.

Harry Kane sækir að marki Bandaríkjanna og Tyler Adams reynir …
Harry Kane sækir að marki Bandaríkjanna og Tyler Adams reynir að fylgja honum. AFP/Patrick T. Fallon

Bandaríska liðið náði smám saman upp miklum sóknarþunga og gerði á kafla harða hríð að enska markinu þar sem það fékk m.a. fimm hornspyrnur með stuttu millibili en Englendingum með Harry Maguire í aðalhlutverki tókst að verjast því vel.

Gareth Southgate þjálfari enska liðsins sendi Jordan Henderson og Jack Grealish til leiks á 69. mínútu, í staðinn fyrir Jude Bellingham og Raheem Sterling. Marcus Rashford kom síðan fyrir Bukayo Saka á 77. mínútu.

Enska liðið stóð af sér áhlaup Bandaríkjamanna og komst smám saman aftur inn í leikinn þegar leið á seinni hálfleikinn. Marktækifæri beggja liða voru af skornum skammti í síðari hálfleiknum. Marcus Rashford átti fyrsta skot Englands í seinni hálfleik á 88. mínútu en beint á Matt Turner í marki Bandaríkjanna.

Í lok uppbótartímans átti Harry Kane skalla að marki eftir aukaspyrnu frá Luke Shaw en talsvert framhjá markinu.

Mason Mount og Sergino Dest í sérkennilegu návígi á upphafsmínútunum …
Mason Mount og Sergino Dest í sérkennilegu návígi á upphafsmínútunum í kvöld. AFP/Odd Andersen

Lið Englands:
Mark: Jordan Pickford.
Vörn: Kieran Trippier, John Stones, Harry Maguire, Luke Shaw.
Miðja: Jude Bellingham (Jordan Henderson 69.), Mason Mount, Declan Rice.
Sókn: Bukayo Saka (Marcus Rashford 77.), Harry Kane, Raheem Sterling (Jack Grealish 69.)

Lið Bandaríkjanna:
Mark: Matt Turner.
Vörn: Sergino Dest (Shaquell Moore 77.), Walker Zimmerman, Tim Ream, Antonee Robinson.
Miðja: Weston McKennie (Brenden Aaronson 77.), Tyler Adams, Yunus Musah.
Sókn: Tim Weah (Giovanni Reyna 83.), Haji Wright (Josh Sargent 83.), Christian Pulisic.

Mikil stemning er á vellinum í Katar í kvöld.
Mikil stemning er á vellinum í Katar í kvöld. AFP/Patrick T. Fallon
Al-Bayt leikvangurinn í Al Khor rétt fyrir leik.
Al-Bayt leikvangurinn í Al Khor rétt fyrir leik. AFP/Glyn Kirk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert