Landsliðskona lætur FIFA heyra það

Linda Sällström í leik með finnska landsliðinu.
Linda Sällström í leik með finnska landsliðinu. Ljósmynd/Finnska knattspyrnusambandið

Finnska landsliðskonan Linda Sällström gagnrýndi Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, harðlega í færslu á Twitter-aðgangi sínum í gærkvöld.

Í færslunni benti hún á hræsnina sem er í því fólgin að meina fyrirliðum á HM karla í Katar að bera regnbogaarmband til stuðnings réttinda LGBTQIA+ fólks, sem eru fótum troðin í Katar enda samkynhneigð glæpur í asíska smáríkinu.

HM kvenna fer fram á næsta ári í Ástralíu og Nýja-Sjálandi og þar munu fjöldi leikmanna sem eru opinberlega samkynhneigðir taka þátt.

„Hey FIFA, hafið þið hugleitt hvers konar skilaboð þið eruð að senda til allra samkynhneigðu leikmannanna sem eru að fara að keppa á HM kvenna næsta sumar?

Ætlið þið að meina opinberlega samkynhneigðum leikmönnum um þátttöku, banna armbandið eða skyndilega þykjast styðja þessa leikmenn?“ skrifaði Sällström.

Hin 34 ára gamla Sällström er markahæsti leikmaður í sögu finnska kvennalandsliðsins með 51 mark í 118 landsleikjum, en Finnar verða ekki með á HM á næsta ári.

Hún er opinberlega samkynhneigð.

mbl.is