Draumur Ástrala lifir

Mitchell Duke fagnar fyrsta marki leiksins.
Mitchell Duke fagnar fyrsta marki leiksins. AFP/Jewel Samad

Ástralía hafði betur gegn Túnis, 1:0, í fyrsta leik dagsins á HM karla í fótbolta í Katar í dag. Leikurinn var liður í D-riðli og er Ástralía nú með þrjú stig, eins og Frakkland.

Túnis er aðeins með eitt stig, eins og Danmörk, en Frakkland og Danmörk mætast í dag.

Mitchell Duke skoraði sigurmark Ástralíu á 23. mínútu. Úrslitin þýða að Ástralía á enn möguleika á að fara upp úr riðlinum, en Túnis er nánast úr leik. 

Mikill meirihluti þeirra sem lögðu leið sína á Al Janoub-völlinn í dag voru á bandi Túnis og var baulað hressilega á liðsmenn Ástralíu í hvert skipti sem þeir fengu boltann. 

Mitchell Duke skoraði fyrsta mark leiksins.
Mitchell Duke skoraði fyrsta mark leiksins. AFP/Miguel Medina

Jafnræði var með liðunum framan af og var lítið um opin færi á fyrstu 20 mínútunum. Mohamed Drager átti fyrstu tilraun Túnis er hann negldi yfir á 20. mínútu af löngu færi.

Það var hins vegar Ástralía sem sem skoraði fyrsta markið á 24. mínútu. Craig Goodwin átti þá fyrirgjöf frá vinstri og Duke skallaði glæsilega í fjærhornið. 

Túnis komst nálægt því að jafna á 41. mínútu þegar Mohamed Drager komst einn gegn Mathew Ryan í ástalska markinu en Harry Souttar tókst einhvern veginn að bjarga á síðustu stundu, með glæsilegri tæklingu. 

Youssef Mseknir sækir að ástralska markinu.
Youssef Mseknir sækir að ástralska markinu. AFP/Paul Ellis

Youssef Msakni fékk kjörið tækifæri til að jafna í uppbótartíma fyrri hálfleiks, en hann setti boltann framhjá af stuttu færi í teignum. Var um besta færi Túnis í fyrri hálfleiks að ræða og voru hálfleikstölur því 1:0, Ástralíu í vil. 

Liðunum gekk frekar illa að skapa sér færi framan af í seinni hálfleik og einkenndist leikurinn af mikilli baráttu og tæklingum. Túnis skapaði sér loksins færi til að jafna á 72. mínútu þegar Youssef Msakni átti fast skot í teignum en Mathew Ryan í marki Ástralíu var snöggur niður og varði vel. 

Aissa Laidoun og Mitchell Duke eigast við í dag.
Aissa Laidoun og Mitchell Duke eigast við í dag. AFP/Miguel Medina

Montassar Talbi var næstur að reyna fyrir Túnis en hann skaut nokkuð beint á Ryan í markinu á 84. mínútu. Fjórum mínútum síðar fékk Wahbi Khazri gott færi í teignum en hann náði ekki krafti í skotið og Ryan varði. Reyndist það síðasta færi leiksins og Ástralía fagnaði sætum sigri. 

Lið Túnis:
Mark: Aymen Dahmen
Vörn: Dylan Bronn (Wajdi Kechrida 73.), Yassine Mariah, Montassar Talbi
Miðja: Mohamed Drager (Ferjani Sassi 46.), Ellyes Skhiri, Aissa Laidouni (Wahbi Khazri 67.), Ali Abdi
Sókn: Naim Sliti, Issam Jebali (Taha Khenissi 73.), Youssef Msakni

Lið Ástralíu:
Mark: Mathew Ryan
Vörn: Fran Karacic (Milos Degenek 75.), Harry Souttar, Kye Rowles, Aziz Behich
Miðja: Riley McGree (Ajdin Hrustic 64.), Aaron Mooy, Jackson Irvine
Sókn: Mathew Leckie (Keanu Baccus 85.), Mitchell Duke (Jamie MacLaren 64.), Craig Goodwin (Awer Mabil 85.)

mbl.is