Lewandowski skoraði í sigri Póllands

Robert Lewandowski fagnar marki sínu.
Robert Lewandowski fagnar marki sínu. AFP/Manan Vatsyayana

Pólland hafði betur gegn Sádi-Arabíu, 2:0, er liðin mættust í C-riðli á HM í fótbolta í Katar í dag.

Með sigrinum fór Pólland upp í toppsæti riðilsins með fjögur stig. Sádi-Arabía er með þrjú stig í öðru sæti. Mexíkó er með eitt stig og Argentína ekkert en liðin mætast klukkan 19 í kvöld.

Piotr Zielinski kom Póllandi yfir á 40. mínútu. Robert Lewandowski bætti við öðru marki á 82. mínútu. 

Sádi-Arabía fór betur af stað og Mohammed Al-Burayk átti fyrstu tilraunina snemma leiks. Hann skaut hins vegar í varnarmann og rétt yfir markið. Á 13. mínútu komst Mohammed Kanno enn nær því að skora þegar hann átti fast skot að marki, sem Wojciech Szczesny varði virkilega vel. 

Pólska liðið var í vandræðum framan af í fyrri hálfleik og þeir Jakub Kiwior, Arkadiusz Milik og Matty Cash fengu allir að líta gula spjaldið á fyrstu tæpu 20 mínútunum. 

Það var því gegn gangi leiksins þegar pólska liðið komst yfir á 40. mínútu. Robert Lewandowski átti þá fyrirgjöf á Piotr Zielinski sem kláraði með glæsilegu skoti upp í þaknetið. 

Aðeins fimm mínútum síðar fékk Sádi-Arabía vítaspyrnu þegar Krystian Bielik var dæmdur brotlegur fyrir litlar sakir. Salem Al-Dawsari fór á punktinn, en Wojciech Szczesny varði virkilega vel. Pólski markvörðurinn varði svo enn betur þegar Mohammed Al-Burayk fylgdi á eftir í kjölfarið og var staðan því enn 1:0. Vörslurnar tvær með þeim allra bestu á mótinu. 

Þrátt fyrir níu mínútna uppbótartíma tókst Sádi-Arabíu ekki að skapa sér annað gott færi í hálfleiknum og var staðan í leikhléi því 1:0. 

Mohammed Kanno átti fyrstu tilraun seinni hálfleiks, þegar hann reyndi hjólhestaspyrnu á 51. mínútu, en boltinn nokkuð framhjá markinu. Fjórum mínútum síðar fékk Salem Al-Dawsari gott færi eftir darraðardans í teignum en enn varði Szczesny vel. 

Sádarnir héldu áfram að sækja og á 60. mínútu komst Firas Al-Buraikan í gott færi en setti boltann rétt framhjá. Nokkrum mínútum síðar átti Mohammed Kanno yfir markið úr teignum. Markið lá hreinlega í loftinu. 

Pólland sótti í sig veðrið eftir því sem leið á hálfleikinn og Arkadiusz Milik komst nálægt því að skora á 63. mínútu er hann skallaði í stöngina. Aðeins tveimur mínútum síðar átti Robert Lewandowski svo skot í stöngina, en inn vildi boltinn ekki. 

Það breyttist á 82. mínútu þegar Robert Lewandowski skoraði annað mark Pólverja. Hann nýtti sér þá vond mistök í vörn Sádi-Arabíu, slapp einn í gegn og skoraði af öryggi. Hann var nálægt því að bæta við öðru marki á lokamínútu venjulegs leiktíma, en þá varði Mohammed Al-Owais í marki Sáda vel frá honum. 

Mörkin urðu ekki fleiri og Pólverjar fóru upp í toppsæti riðilsins. 

Lið Póllands:
Mark: Wojciech Szczesny
Vörn: Jakub Kiwior, Kamil Glik, Bartosz Bereszynski
Miðja: Matty Cash, Krystian Bielik, Grzegorz Krychowiak, Przemyslaw Frankowski, Piotr Zielinski (Jakub Kaminski 63.)
Sókn: Robert Lewandowski, Arkadiusz Milik (Krzysztof Piatek 71.)

Lið Sádi-Arabíu:
Mark: Mohammed Al-Owais
Vörn: Saud Abdulhamid, Abdulelah Al-Amri, Ali Al-Boleahi, Mohammed Al-Burayk (Sultan Al-Ghannam 65.)
Miðja: Firas Al-Buraikan, Sami Al-Najei (Nawaf Al-Abed 46.), Mohammed Kanno, Abduleah Al Malki (Abdulrahman Alobud 85.), Salem Al-Dawsari
Sókn: Raleh Al-Shehri (Nasser Al-Dawsari 85.)

Wojciech Szczesny ver víti í fyrri hálfleik.
Wojciech Szczesny ver víti í fyrri hálfleik. AFP/Kirill Kudryavtsev
Piotr Zielinskiy fagnar fyrsta marki leiksins.
Piotr Zielinskiy fagnar fyrsta marki leiksins. AFP/Manan Vatsyayana
Robert Lewandowski með boltann í dag.
Robert Lewandowski með boltann í dag. AFP/Manan Vatsyayana
Przemyslaw Frankowski og Bartosz Bereszynski sækja að Firas Al-Buraikan.
Przemyslaw Frankowski og Bartosz Bereszynski sækja að Firas Al-Buraikan. AFP/Odd Andersen
Pólskir stuðningsmenn í Katar mættir í stúkuna.
Pólskir stuðningsmenn í Katar mættir í stúkuna. AFP/Glyn Kirk
mbl.is