Ekki meira með í riðlakeppninni eftir rifbeinsbrot

Danilo Pereira spilar væntanlega ekki meira fyrir Portúgal í riðlakeppninni.
Danilo Pereira spilar væntanlega ekki meira fyrir Portúgal í riðlakeppninni. AFP/Khaled Desouki

Danilo Pereira, miðvörður portúgalska karlalandsliðsins í knattspyrnu, varð fyrir því óláni að rifbeinsbrotna á æfingu með liðinu í Katar.

Af þeim sökum mun hann að öllum líkindum ekki spila meira með Portúgal í riðlakeppninni á HM en vonir standa til þess að Danilo verði klár í slaginn í 16-liða úrslitum mótsins, komist liðið þangað.

Fernando Santos landsliðsþjálfari sagði á blaðamannafundi í dag að enginn innan portúgalska teymisins átti sig almennilega á því hvernig Danilo hafi farið að því að brjóta þrjú rifbein á æfingu.

Það væri hins vegar tilfellið og mun hinn 39 ára gamli Pepe taka sæti Danilo í miðri vörn Portúgals þegar liðið mætir Úrúgvæ í H-riðlinum annað kvöld, að því er Santos greindi frá.

mbl.is