Hjóluðu frá París til Katar

Mehdi Balamissa og Gabriel Martin hjóluðu frá París til Doha.
Mehdi Balamissa og Gabriel Martin hjóluðu frá París til Doha. AFP

Tveir franskir fótboltaðdáendur ákváðu að fara lengri leiðina til Doha í Katar til að fylgjast með liði sínu keppa á heimsmeistaramótinu í Katar. Mennirnir tveir, Mehdi Balamissa og Gabriel Martin, ákváðu að sleppa því að skottast upp í flugvél og fljúga til landsins og ákváðu heldur að hjóla frá París til Doha. 

Balamissa og Martin lögðu af stað fyrir þremur mánuðum síðan og hjóluðu rúmlega 7 þúsund kílómetra til þess að fylgjast með franska karlalandsliðinu verja titil sinn sem heimsmeistarar. 

„Þetta var algjörlega galin hugmynd, en við erum þannig fólk sem fær stórar hugmyndir og vill ekki sjá eftir neinu,“ sagði Balamissa í viðtali við CNN Sport, degi eftir að þeir komu til Katar. 

„Við vinnum báðir sjálfstætt, þannig við ákváðum að taka okkur þrigja mánaða frí og fara til Katar.“

Ferðin hófst á þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France, og lauk við Lusail leikvanginn þar sem úrslitaleikur HM fer fram. 

115 kílómetrar á dag

Hugmyndina fengu þeir félagar eftir að hafa hjólað frá Frakklandi til Ítalíu til að fylgjast með Frakklandi spila í Þjóðadeildinni. Langaði þá til að setja markið hærra og fara í mun lengri ferð. 

Balamissa og Martin hjóluðu um 115 kílómetra á dag að meðaltali og tóku sér frídaga þegar þeir þurftu. Þeir vonast til þess að hjólaferð þeirra veki athygli á sjálfbærum og umhverfisvænum ferðamátum. Eftir heimsmeistaramótið stefna þeir á að bjóða upp á hjólanámskeið fyrir börn sem koma úr efnaminni fjölskyldum.

Fyrst ætla þeir þó að njóta lífsins í Katar og horfa á franska landsliðið spila. 

Franska knattspyrnusambandið hefur boðið Balamissa og Martin að koma og hitta liðið og hefur sambandið einnig skaffað þeim miða á alla þrjá leikina í riðlakeppninni. Þá gaf þjálfari liðsins, Didier Deschamps, þeim áritaðar treyjur að gjöf. 

Stuðningsmenn franska landsliðsins tóku fagnandi á móti þeim félögum.
Stuðningsmenn franska landsliðsins tóku fagnandi á móti þeim félögum. AFP
mbl.is