Króatar of sterkir fyrir Kanada sem er á heimleið

Andrej Kramaric fagnar seinna marki sínu í dag með Luka …
Andrej Kramaric fagnar seinna marki sínu í dag með Luka Modric í bakgrunni. AFP/Adrian Dennis

Króatía vann góðan 4:1-sigur á Kanada í 2. umferð F-riðilsins á heimsmeistaramóti karla í fótbolta á alþjóðlega Khalifa-vellinum í Katar í dag. Þessi úrslit þýða að Kanada er á heimleið.

Alphonso Davies kom Kanada yfir á 2. mínútu leiksins með laglegum skalla. Andrej Kramaric jafnaði metin á 36. mínútu með góðri afgreiðslu. Marko Livaja kom svo Króatíu yfir, einnig með laglegri afgreiðslu, á 44. mínútu. 

Það var svo á 70. mínútu sem Kramaric kom Króatíu í 3:1 með enn einu flotta markinu. Varamaðurinn Lovro Majer skoraði svo fjórða og síðasta mark Króata í uppbótartíma er hann setti boltann í opið net. 

Allt er opið á milli efstu þriggja liðanna í riðlinum en Kanada er dottið úr leik. Króatía og Marokkó eru með fjögur stig og Belgía þrjú stig. Króatía mætir Belgum í lokaumferðinni á fimmtudaginn kemur klukkan 15. Kanada mætir Marokkó samdægurs, einnig klukkan 15. Ljóst er að viðureign Króatíu og Belgíu verður hreinn úrslitaleikur um sæti í 16-liða úrslitunum en Marokkó stendur afar vel að vígi og kemst örugglega áfram með jafntefli við Kanada, jafnvel þó leikurinn tapist.

Króatía gerði markalaust jafntefli við Marokkó í 1. umferðinni en Kanada tapaði 0:1 fyrir Belgíu. Marokkó vann frækinn 2:0-sigur á Belgíu áðan.

Ólíkt því í mörgum öðrum leikjum þurftum við ekki að bíða lengi eftir fyrsta mark leiksins en það kom eftir 68 sekúndur. Þá stökk Alphonso Davies á fyrirgjöf Tajon Buchanan og stangaði boltann í netið. Þvílík byrjun hjá Kanada. 

Alphonso Davies fagnar skallamarki sínu í dag.
Alphonso Davies fagnar skallamarki sínu í dag. AFP/Jewel Samad

Davies var fljótur að svara fyrir sig en hann var skúrkurinn í síðasta leik Kanada, gegn Belgíu, vegna vítaklúðurs. Sem og að vera fyrsta mark Kanada á þessu heimsmeistaramóti er þetta einnig fyrsta mark þjóðarinnar á heimsmeistaramóti yfir höfuð.

Á 22. mínútu þræddi Mateo Kovacic liðsfélaga sinn Marko Livaja í gegn en hann náði aðeins lausu skot og boltinn rúllaði til Milan Borjan, markvörð Kanada.

Fjórum mínútum síðar setti Andrej Kramaric boltann í netið eftir að hafa leikið vel á varnarmenn Kanada. Það var þó síðar réttilega dæmd rangstæða þar sem Marko Livaja, sem gaf á Kramaric, var rangstæður er hann fékk boltann.

Andrej Kramaric svekktur er mark hans var dæmt af.
Andrej Kramaric svekktur er mark hans var dæmt af. AFP/Antonin Thuillier

Króatar héldu áfram að sækja og á 34. mínútu fékk Livaja gott færi en Borjan varði aftur vel frá honum.

Aðeins tveimur mínútum síðar þræddi Ivan Perisic Kramaric í gegn vinstra megin í teignum. Kramaric tók á móti boltanum og kláraði vel í fjærhornið, laglegt mark hjá Króatíu og einnig verðskuldað. 

Andrej Kramaric fagnar marki sínu.
Andrej Kramaric fagnar marki sínu. AFP/Antonin Thullier

Leikmenn Króatíu héldu aðeins áfram að sækja og á 44. mínútu voru þeir komnir yfir. Þá kom Kramaric boltanum á Livaja sem lagði hann neðarlega í vinstra hornið rétt utan teigs. Lagleg afgreiðsla og ólseigir Króatar búnir að snúa leiknum sér í vil. 

Marko Livaja kom Króötum 2:1 yfir með flottu skoti á …
Marko Livaja kom Króötum 2:1 yfir með flottu skoti á 44. mínútu. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Kanadamenn gerðu tvær breytingar á liði sínu í hálfleik. Ismael Kone og Jonathan Osorio komu inn fyrir Cyle Larin og meiddan Stephen Eustaquio. Osorio var nálægt því að jafna metin fyrir Kanada á 48. mínútu er hann lét vaða utan teigs en boltinn fór rétt fram hjá. 

Á 54. mínútu bjó Luka Modric til upplagt færi fyrir Kramaric en Borjan varði vel frá honum. Tveimur mínútum síðar fékk svo Jonathan David gott skotfæri hinum megin á vellinum en Dominik Livakovic varði einnig vel. 

Andrej Kramaric var svo aftur í sviðsljósinu þegar hann tvöfaldaði forystu Króata. Þá fékk hann sendingu frá Ivan Perisic, lék á Atiba Hutchinson, fyrirliða Kanada, og renndi svo boltanum snyrtilega í fjærhornið. Frábært dagsverk hjá Kramaric sem var tekinn af velli stuttu seinna. 

Marcelo Brozovic fékk svo dauðafæri stuttu seinna er Kovacic sendi boltann á hann en Borjan varði frá honum. 

Á fjórðu mínútu uppbótartíma sluppu varamennirnir Mislav Orsic og Lovro Majer einir í gegn er Kanada var með allt liðið sitt frammi. Orsic var einn á móti Borjan en renndi honum á Majer sem setti boltann í þaknetið og tryggði Króatíu 4:1-reynslusigur. Mikil seigla í króatískaliðinu sem svaraði marki Kanada á 2. mínútu leiksins afar vel.

Lovro Majer þakkar Mislav Orsic fyrir stoðsendinguna.
Lovro Majer þakkar Mislav Orsic fyrir stoðsendinguna. AFP/Jewel Samad

Lið Króatíu: (4-3-3)
Mark: Dominik Livakovic.
Vörn: Josip Juranovic, Dejan Lovren, Josko Gvardiol, Borna Sosa.
Miðja: Luka Modric (Mario Pasalic 86.), Marcelo Brozovic, Mateo Kovacic (Lovro Majer 86.).
Sókn: Marko Livaja (Bruno Petkovic 60.), Andrej Kramaric (Nikola Vlasic 72.), Ivan Perisic (Mislav Orsic 86.).

Lið Kanada: (3-4-3)
Mark: Milan Borjan.
Vörn: Alistair Johnston, Steven Vitora, Kamal Miller.
Miðja: Richie Laryea (Junior Hoilett 62.), Atiba Hutchinson (Sam Adekugbe 72.), Stephen Eustaquio (Ismael Kone 46.), Alphonso Davies.
Sókn: Tajon Buchanan, Jonathan David (Lucas Daniel Cavallini 72.), Cyle Larin (Jonathan Osorio 46.).

Fyrirliðarnir Atiba Hutchinson og Luka Modric eltast við boltann.
Fyrirliðarnir Atiba Hutchinson og Luka Modric eltast við boltann. AFP/Ozan Kose
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert