Óvænt hetja Þýskalands hélt E-riðli galopnum – Öll liðin geta farið áfram

Þjóðverjinn Niclas Füllkrug fagnar því að hafa jafnað metin fyrir …
Þjóðverjinn Niclas Füllkrug fagnar því að hafa jafnað metin fyrir Þjóðverja í kvöld. AFP/Ina Fassbender

Spánn og Þýskaland skildu jöfn, 1:1, í síðasta leik dagsins á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Katar. Leikurinn fór fram á Al Bayt-vellinum í Al-Kohr.

Varamaðurinn Alvaro Morata kom Spáni yfir á 62. mínútu með góðri afgreiðslu úr teignum. Á 83. mínútu jafnaði svo annar varamaður, Niclas Füllkrug metin en þetta var annað landsliðsmark hans í fjórða leiknum.

Alvaro Morata fagnar því að hafa komið Spánverjum yfir í …
Alvaro Morata fagnar því að hafa komið Spánverjum yfir í kvöld. AFP/Javier Soriano

Liðin leika í E-riðli líkt og Japan og Kosta Ríka sem mættust fyrr í dag þar sem Kosta Ríka fór með 1:0-sigur af hólmi. Staðan í riðlinum eftir leik kvöldsins er því þannig að Spánn er á toppnum með fjögur stig, Japan og Kosta Ríka eru með þrjú stig og Þýskaland eitt. Riðillinn er því galopinn fyrir lokaumferðina en öll fjögur liðin geta enn farið áfram í 16-liða úrslitin. Þar leika Spánverjar við Japan og Þýskaland mætir Kosta Ríka.

Spánverjar byrjuðu leikinn betur en strax á 7. mínútu átti Dani Olmo frábært skot frá vinstra vítateigshorni. Markvörður Þýskalands, Manuel Neuer, sá hins vegar við honum með enn betri vörslu. Þegar leið á fyrri hálfleikinn komust Þjóðverjar þó betur inn í leikinn og þegar rétt tæplega 25 mínútur voru liðnar átti Serge Gnabry hörkuskot rétt fram hjá stöng Spánverja.

Spánverjinn Rodri og Þjóðverjinn Thomas Müller í baráttunni í leiknum …
Spánverjinn Rodri og Þjóðverjinn Thomas Müller í baráttunni í leiknum í kvöld. AFP/Manan Vatsyayana

Á 40. mínútu átti Joshua Kimmich frábæra aukaspyrnu af hægri vængnum, beint á kollinn á Antonio Rüdiger sem stangaði boltann í netið. Leit allt út fyrir að Þjóðverjar væru komnir yfir en eftir að hafa skoðað markið betur var réttilega dæmd rangstaða og staðan því áfram markalaus.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks átti Rüdiger aðra tilraun en fast skot hans úr þröngu færi í teignum var varið af Unai Simon. Var staðan því 0:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Simon þurfti svo að hreinsa upp eftir sjálfan sig snemma í síðari hálfleik en hann átti þá mjög slæma sendingu út frá marki Spánverja. Hann gaf boltann beint á Ilkay Gündogan sem lagði hann til hliðar á Joshua Kimmich en Simon varði skot hans úr teignum vel.

Þjóðverjar fagna jöfnunarmarki Niclas Füllkrug.
Þjóðverjar fagna jöfnunarmarki Niclas Füllkrug. AFP/Nicolas Tucat

Fyrsta markið kom svo á 62. mínútu en það var varamaðurinn Alvaro Morata sem kom Spáni yfir. Vinstri bakvörðurinn Jordi Alba var þá kominn hátt upp og renndi boltanum fyrir með jörðinni í nærsvæðið þar sem Morata mætti og kláraði vel. Morata hafði ekki verið inn á í nema tæpar átta mínútur þegar hann var búinn að skora.

Tveimur mínútum síðar spiluðu Spánverjar svo frábærlega sín á milli sem endaði með því að Marco Asensio fékk fínasta færi rétt utan teigs en skot hans fór hátt yfir markið.

Á 83. mínútu jöfnuðu Þjóðverjar svo metin. Varamaðurinn Niclas Füllkrug komst þá inn fyrir vörn Spánverja og kláraði stórkostlega fram hjá Unai Simon. Hinn 29 ára gamli Füllkrug var einungis að spila sinn fjórða landsleik og var þetta hans annað mark en hann hefur leikið ljómandi vel með Werder Bremen í heimalandinu á tímabilinu. Mögnuð saga hjá þessum stæðilega framherja.

Lið Spánar:
Mark: Unai Simon.
Vörn: Dani Carvajal, Rodri, Aymeric Laporte, Jordi Alba (Álex Balde 82.).
Miðja: Gavi (Koke 66.), Sergio Busquets, Pedri.
Sókn: Marco Asensio (Nico Williams 66.), Dani Olmo, Ferran Torres (Alvaro Morata 54.).

Lið Þýskalands:
Mark: Manuel Neuer.
Vörn: Tilo Kehrer (Lukas Klostermann 70.), Niklas Süle, Antonio Rüdiger, David Raum (Nico Schlotterbeck 87.).
Miðja: Ilkay Gündogan (Leroy Sane 70.), Joshua Kimmich, Leon Goretzka.
Sókn: Serge Gnabry (Jonas Hofmann 85.), Thomas Müller (Niclas Füllkrug 70.), Jamal Musiala.

Spænski miðjumaðurinn Koke veifar áhorfendum fyrir leik kvöldsins.
Spænski miðjumaðurinn Koke veifar áhorfendum fyrir leik kvöldsins. AFP/Nicolas Tucat
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert