Casemiro skaut Brössum í 16-liða úrslit

Casemiro fagnar glæsilegu marki sínu.
Casemiro fagnar glæsilegu marki sínu. AFP/Nélson Almeida

Brasilía hafði betur gegn Sviss, 1:0, í 2. umferð G-riðils heimsmeistaramóts karla í fótbolta á 974-vellinum í Katar í dag og tryggði sér þannig sæti í 16-liða úrslitum mótsins.

Casemiro skoraði sigurmark Brassa með glæsilegu skoti á 83. mínútu.

Brasilía vann góðan 2:0-sigur á Serbíu í fyrstu umferð G-riðilsins og er því nú með 6 stig á toppi riðilsins en Sviss er í öðru sæti eftir 1:0-sigur á Kamerún í fyrstu umferðinni. Serbía og Kamerún mættust í morgun og gerðu 3:3-jafntefli í stórskemmtilegum leik og eru því bæði með 1 stig.

Neymar og Danilo eru báðir frá vegna meiðsla hjá Brasilíu og leika ekki meira í riðlakeppninni.

Leikurinn í dag fór afskaplega rólega af stað og leit fyrsta markskot hans ekki ljós fyrr en á 27. mínútu.

Þá fékk Vinícius Júnior sannkallað dauðafæri eftir frábæra fyrirgjöf Raphinha af hægri kantinum en hitti boltann illa á lofti og Yann Sommer varði skotið aftur fyrir endamörk.

Í kjölfarið var Brasilía atgangsharðari en tókst þó ekki að skapa sér fleiri opin skotfæri í fyrri hálfleiknum.

Markalaust var því í leikhléi.

Sviss hóf síðari hálfleikinn af krafti þar sem Djibril Sow og Ruben Vargas áttu skottilraunir innan vítateigs eftir laglegt spil en í bæði skiptin komust varnarmenn Brasilíu fyrir skotin.

Á 64. mínútu virtist Brasilía vera að ná forystunni þegar Vinícius Júnior lagði boltann snyrtilega í netið eftir laglega stungusendingu Casemiro. Eftir athugun í VAR var markið hins vegar dæmt af vegna rangstöðu Richarlison í aðdragandanum.

Það var svo Casemiro sem kom Brössum yfir á 83. mínútu. Hann fékk þá sendingu inn fyrir frá varamanninum Rodrygo, tók stórkostlegt, viðstöðulaust skot á lofti utarlega úr vítateignum sem fór örlítið af Manuel Akanji og þaðan í bláhornið.

Nokkrum mínútum síðar átti Rodrygo hörkuskot fyrir utan vítateig en Sommer gerði vel í að verja það aftur fyrir.

Rodrygo gerði sig aftur líklegan á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar hann fékk sendingu frá Vinícius Júnior og tók skot innan teigs en Akanji komst fyrir það á síðustu stundu.

Fleiri urðu mörkin ekki og eins marks sigur því niðurstaðan.

Brasilía er þar með annað liðið á eftir ríkjandi heimsmeisturum Frakklands sem tryggir sér sæti í 16-liða úrslitum áður en lokaumferð riðlakeppninnar fer fram.

Lið Brasilíu: (4-3-3)
Mark: Alisson.
Vörn: Éder Militao, Thiago Silva, Marquinhos, Alex Sandro (Alex Telles 87.).
Miðja: Casemiro, Fred (Bruno Guimaraes 58.), Lucas Paquetá (Rodrygo 46.).
Sókn: Raphinha (Antony 73.), Richarlison (Gabriel Jesus 73.), Vinícius Júnior.

Lið Sviss: (4-4-2)
Mark: Yann Sommer.
Vörn: Silvan Widmer (Fabian Frei 86.), Manuel Akanji, Nico Elvedi, Ricardo Rodriguez.
Miðja: Remo Freuler, Granit Xhaka, Fabian Rieder (Edimilson Fernandes 59.), Djibril Sow (Michel Aebischer 76.).
Sókn: Breel Embolo (Haris Seferovic 76.), Ruben Vargas (Renato Steffen 59.).

Casemiro kom Brössum yfir seint í leiknum.
Casemiro kom Brössum yfir seint í leiknum. AFP/Anne-Christine Poujoulat
Nico Elvedi og Richarlison berjast um boltann í leiknum.
Nico Elvedi og Richarlison berjast um boltann í leiknum. AFP/Giuseppe Cacace
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert