Brotið níu sinnum á honum í leiknum

Neymar situr meiddur á vellinum eftir eitt af brotunum í …
Neymar situr meiddur á vellinum eftir eitt af brotunum í leiknum gegn Serbíu. AFP/Nelson Almeida

Brotið var níu sinnum á Neymar í leik Brasilíu og Serbíu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu á dögunum og Tite, þjálfari Brasilíumanna, segir að einelti gagnvart einstaka leikmönnum verði að stöðva.

Neymar leikur á sínu þriðja heimsmeistaramóti og frá árinu 2014 hefur verið brotið á honum í 53 skipti í leikjum Brasilíu, ellefu sinnum oftar en á nokkrum öðrum leikmanni.

Hann meiddist á ökkla í leiknum gegn Serbíu í fyrstu umferðinni þegar Nikola Milenkovic braut harkalega á honum, og verður ekki með gegn Sviss í dag og heldur ekki gegn Kamerún í lokaumferð riðlakeppninnar. 

Brasilíumenn misstu líka Danilo meiddan af velli í leiknum gegn Serbum, eftir svipað atvik.

„Ef við ætlum að njóta fótboltans þá verður að stöðva þessi brot. Þeir einbeita sér að bestu leikmönnunum og þetta er niðurstaðan. Þessu verður að linna," sagði Tite við fréttamenn fyrir leikinn gegn Sviss sem hefst í Katar klukkan 13 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert