Fernandes kom Portúgal í sextán liða úrslit

Bruno Fernandes skoraði tvívegis fyrir Portúgal og fagnar hér fyrra …
Bruno Fernandes skoraði tvívegis fyrir Portúgal og fagnar hér fyrra markinu ásamt Cristiano Ronaldo. AFP/Odd Andersen

Portúgal tryggði sér í kvöld sæti í sextán liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Katar með því að sigra Úrúgvæ, 2:0, í B-riðli keppninnar í Lusail.

Portúgal er með sex stig eftir tvær umferðir, Gana er með þrjú stig, Úrúgvæ eitt og Suður-Kórea eitt stig. Gana mætir Úrúgvæ í lokaumferðinni og Portúgal mætir Suður-Kóreu. Gana, Úrúgvæ og Suður-Kórea berjast því um að fylgja Portúgölum í 16-liða úrslitin.

Mathias Oliveira átti fyrstu marktilraun kvöldsins á 3. mínútu þegar hann skaut af 20 metra færi fram hjá marki Portúgals. Mínútu síðar komst William Carvalho í ágætt skotfæri í vítateig Úrúgvæ en skaut himinátt yfir markið.

Fyrsta gula spjaldið fór á loft strax á 6. mínútu þegar úrúgvæski miðjumaðurinn Rodrigo Bentancur var of seinn í tæklingu.

José Giménez varnarmaður Úrúgvæ átti skalla rétt yfir mark Portúgals eftir hornspyrnu á 12. mínútu.

Eftir 25 mínútur höfðu Portúgalir verið með boltann 75 prósent af leiktímanum, átt fimm marktilraunir gegn tveimur og sjö aukaspyrnur höfðu verið dæmdar á Úrúgvæja. Portúgalska liðið sótti linnulítið en Úrúgvæjar lögðu áherslu á að verjast vel.

Rodrigo Bentancur einlék í gegnum miðja vörn Portúgals á 33. mínútu og komst einn gegn Diogo Costa markverði sem varði glæsilega frá honum. Þetta var langbesta færi leiksins fram að því.

Nuno Mendes, vinstri bakvörður Portúgala, þurfti að fara af velli á 42. mínútu vegna meiðsla.

Portúgalir komust í hraða sókn á 52. mínútu, Joao Felix lék inn í vítateiginn vinstra megin en skaut í hliðarnetið.

Portúgal náði forystunni á 54. mínútu þegar Bruno Fernandes sendi boltann inn að markteig frá vinstri og Cristiano Ronaldo stakk sér inn fyrir og virtist stýra boltanum í netið með höfðinu, 1:0. Það kom síðan á daginn að hann snerti ekki boltann og Fernandes skoraði því markið.

Maxi Gómez átti þrumuskot í stöng portúgalska marksins á 75. mínútu en hann og Luis Suárez voru þá nýkomnir inn á sem varamenn hjá Úrúgvæ, fyrir Darwin Núnez og Edinson Cavani.

Luis Suárez gerði líka vart við sig því á 78. mínútu komst hann í færi í markteig Portúgala eftir aukaspyrnu og skaut í hliðarnetið.

Mínútu síðar komst Guillermo Varela í mjög gott færi hægra megin í vítateignum en Diogo Costa markvörður Portúgals sá við honum og varði.

Portúgal fékk vítaspyrnu í byrjun uppbótartímans eftir skoðun dómarans á skjá þar sem í ljós kom að leikmaður Úrúgvæ fékk boltann í höndina. Bruno Fernandes tók spyrnuna og skoraði sitt annað mark, 2:0.

Fernandes var nærri því að ná þrennunni þegar hann skaut í utanverða stöngina undir lok uppbótartímans, og aftur mínútu síðar þegar hann  gerði nákvæmlega það sama, en í stöngina hinum megin.

Lið Portúgals:
Mark: Diogo Costa.
Vörn: Joao Cancelo, Rúben Dias, Pepe, Nuno Mendes (Raphael Guerreiro 42.).
Miðja: Bernardo Silva, Rúben Neves (Rafael Leao 69.), William Carvalho (Joao Palhinha 82.)
Sókn: Bruno Fernandes, Cristiano Ronaldo (Goncalo Ramos 82), Joao Felix (Matheus Nunes 82.).

Lið Úrúgvæ:
Mark: Sergio Rochet.
Vörn: Sebastian Coates, Diego Godín (Facundo Pellistri 62.), José Giménez.
Miðja: Guillermo Varela, Federico Valverde, Matias Vecino (Giorgian de Arrascaeta 62.), Rodrigo Bentancur, Mathias Oliveira (Matias Vina 86.).
Sókn: Darwin Núnez (Luiz Suárez 72.), Edinson Cavani (Maxi Gómez 72.).

Cristiano Ronaldo stekkur og virðist sneiða boltann í netið með …
Cristiano Ronaldo stekkur og virðist sneiða boltann í netið með höfðinu. Það var þó Bruno Fernandes sem skoraði markið því Ronaldo snerti ekki boltann. AFP/Kirill Kudryavtsev
Hinn 39 ára gamli Pepe kom inn í lið Portúgals …
Hinn 39 ára gamli Pepe kom inn í lið Portúgals í kvöld og lætur hér heyra til sín. AFP/Odd Andersen
Portúgalski bakvörðurinn Joao Cancelo og úrvúgvæski bakvörðurinn Mathias Olivera í …
Portúgalski bakvörðurinn Joao Cancelo og úrvúgvæski bakvörðurinn Mathias Olivera í baráttu um boltann í Lusail í kvöld. AFP/Kirill Kudryavtsev
Liðin á vellinum í Lusail fyrir leik.
Liðin á vellinum í Lusail fyrir leik. AFP/Glyn Kirk
Litríkir stuðningsmenn Portúgals á vellinum í kvöld.
Litríkir stuðningsmenn Portúgals á vellinum í kvöld. AFP/Patricie de Melo Moreira
mbl.is