Frábær rígur milli okkar og þeirra

Gareth Southgate og Jordan Henderson sátu fréttamannafundinn í dag fyrir …
Gareth Southgate og Jordan Henderson sátu fréttamannafundinn í dag fyrir hönd enska liðsins. AFP/Paul Ellis

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að það sé skemmtilegur rígur á milli Englendinga og Walesbúa, sem mætast í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Katar annað kvöld.

Á fréttamannafundi í dag vegna leiksins var Southgate spurður um hvernig rígurinn væri á milli Englands og Wales.

Breskum fréttamönnum á staðnum þótti spurningin greinilega drepfyndin en Southgate svaraði af yfirvegun:

„Þeir eru hér og við erum hér. Þetta er eins og alls staðar þar sem tvö lönd eiga sameiginleg landamæri. Það er rígur á milli þeirra. Í mínum augum er þetta frábær rígur í íþróttum. Kannski eru ekki allir sammála mér en ég er frá Yorkshire og þar finnst fólki það líka alltaf vera í baráttu við aðra Englendinga.

En það verður mögnuð stemning á vellinum og við hlökkum mikið til leiksins," sagði Southgate.

England stendur mjög vel að vígi í B-riðlinum fyrir leikinn, með 4 stig, en Íran er með 3 stig, Bandaríkin tvö og Wales eitt. Tvö liðanna komast áfram og enska liðið þyrfti að tapa með fjögurra marka mun fyrir Wales til að falla úr keppni.

Southgate staðfesti á fundinum að fyrirliðinn Harry Kane væri leikfær en hann meiddist í fyrsta leiknum, 6:2 sigurleiknum gegn Íran, og var tæpur í leik númer tvö, markalausa jafnteflinu gegn Bandaríkjunum.

Reiknað er með að Jordan Henderson komi inn í byrjunarlið Englands fyrir Jude Bellingham, ekki síst eftir að Henderson var fulltrúi ensku leikmannanna á fundinum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert