Hann verður að fara eftir reglum

Rigobert Song þjálfari Kamerún fagnar marki sinna manna í leiknum …
Rigobert Song þjálfari Kamerún fagnar marki sinna manna í leiknum við Serbíu í dag. AFP/Issouf Sanogo

Rigobert Song, þjálfari knattspyrnulandsliðs Kamerún, segir að markvörðurinn André Onana gæti snúið aftur í leikmannahópinn eftir að hafa yfirgefið liðið í Katar í gær.

Song staðfesti eftir leik liðsins við Serbíu í dag að Onana hefði verið settur út úr hópnum fyrir leikinn og í framhaldi af því yfirgefið herbúðir liðsins.

„Ég bað hann um að bíða og sjá til hvort hann gæti snúið aftur. Hann verður að fara eftir reglum. Geri hann það, á hann enn möguleika á að koma aftur inn í hópinn. Hann vildi fara og við samþykktum það. Ég tek ábyrgð á þeirri ákvörðun," sagði Song eftir leikinn.

„Þú  verður að fara eftir reglum liðsins, það á við um alla. Ef þú getur það ekki, verður þú að stíga til hliðar og taka ábyrgð. Þú verður að gera það sem af þér er krafist. Liðið er mikilvægara en einstaklingurinn. Markvarðarstaðan er afar mikilvæg en við erum hér sem eitt lið," sagði Song.

Hann tiltók ekki nákvæmlega ástæður þess að Onana var settur út úr hópnum en fjölmiðlar hafa bæði sagt hann hafa verið ósáttan við leikaðferðina hjá Song, og að þjálfarinn hafi krafist þess að hann breytti leikstíl sínum og spilaði boltanum betur á varnarmenn liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert