Það þarf ekki að baula á okkur

Marcus Rashford brá á leik á fréttamannafundinum í Katar í …
Marcus Rashford brá á leik á fréttamannafundinum í Katar í dag þar sem hann keppti við blaðamann í pílukasti. AFP/Paul Ellis

Marcus Rashford, sóknarmaður enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að leikmenn liðsins geri sér fulla grein fyrir því að þeir hafi spilað illa í markalausa jafnteflinu gegn Bandaríkjunum á heimsmeistaramótinu í Katar á föstudagskvöldið.

Þegar leikurinn var flautaður af bauluðu enskir áhorfendur á sína menn, ósáttir við frammistöðuna.

„Ég held að ef við spilum vel í næsta leik muni þessi leikur gegn Bandaríkjunum gleymast. Þetta var ekki skemmtileg upplifun. En satt best að segja þurfum við ekki að heyra það frá áhorfendum að við höfum ekki spilað vel. Við vitum það best sjálfir. Við vorum allir sammála um það í hópnum að við hefðum getað gert betur en þetta," sagði Rashford á fréttamannafundi í dag.

„Þegar þú vinnur ekki leik ertu vonsvikinn, en við megum ekki horfa á þetta of neikvæðum augum. Við stöndum mjög vel að vígi í riðlinum. Þegar við vinnum leik erum við besta lið í heimi. Þegar við töpum erum við versta lið heimi. Þannig er fótboltinn og við leikmennirnir þurfum að halda jafnvæginu," sagði Rashford.

England mætir Wales í lokaumferð B-riðilsins annað kvöld. England stendur afar vel að vígi með fjögur stig, Íran er með þrjú stig, Bandaríkin tvö og Wales eitt stig. Enska liðið myndi þola þriggja marka tap gegn Wales en væri samt öruggt með annað tveggja efstu sætanna og færi í sextán liða úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert