England og Bandaríkin í sextán liða úrslit

Jordan Henderson og Marcus Rashford fagna eftir að Rashford kom …
Jordan Henderson og Marcus Rashford fagna eftir að Rashford kom Englandi í 3:0 gegn Wales með sínu öðru marki. AFP/Nicolas Tucat

England og Bandaríkin náðu  tveimur efstu sætunum og tryggðu sér keppnisrétt í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar með sigrum gegn Wales og Íran í lokaumferð B-riðilsins í kvöld.

Bandaríkin sigruðu Íran 1:0. Christian Pulisic skoraði sigurmarkið á 38. mínútu.

England sigraði Wales 3:0. Marcus Rashford skoraði á 50. mínútu og Phil Foden á 51. mínútu. Rashford skoraði sitt annað mark á 68. mínútu.

England vann riðilinn með sjö stig og mætir Senegal í 16-liða úrslitum. Bandaríkin fengu fimm stig og mæta Hollandi í 16-liða úrslitum. Íran fékk þrjú stig í þriðja sætinu. Wales endaði í neðsta sætinu með eitt stig.

Fyrsta alvöru færið í leikjunum kom á 10. mínútu hjá Englendingum þegar Marcus Rashford átti hörkuskot sem Danny Ward varði.

Að öðru leyti var mest lítið um færi á fyrstu 25 mínútum leikjanna. Englendingar sóttu linnulítið að marki Wales en viðureign Íran og Bandaríkjanna var heldur jafnari og engin teljandi marktækifæri litu þar dagsins ljós.

Walesbúinn Daniel James fékk fyrsta gula spjaldið í Bretlandseyjaslagnum eftir hressilega tæklingu á John Stones á 30. mínútu.

Sardar Azmoun framherji Íran sækir að marki Bandaríkjanna en Sergino …
Sardar Azmoun framherji Íran sækir að marki Bandaríkjanna en Sergino Dest er til varnar. AFP/Glyn Kirk

Á fyrsta hálftímanum var England með boltann 76 prósent gegn Wales og Bandaríkin 61 prósent gegn Íran.

Bandaríski framherjinn Timothy Weah komst á 33. mínútu í gott skotfæri í vítateig Íran en skaut yfir markið.

Wales missti bakvörðinn Neco Williams meiddan af velli á 36. mínútu gegn Englandi og Connor Roberts kom í hans stað.

Englendingar náðu hraðri og skemmtilegri sókn á 38. mínútu sem lauk með skoti Phils Fodens yfir mark Wales úr góðu færi.

Bandaríkin náðu forystunni gegn Wales á 38. mínútu. Sergino Dest skallaði boltann inn í markteiginn frá hægri og Christian Pulisic kom á ferðinni og sendi hann viðstöðulaust í netið. Staðan var þá 1:0 fyrir Bandaríkjamenn sem þar með voru komnir í annað sæti riðilsins.

Christian Pulisic skorar fyrir Bandaríkin gegn Íran á 38. mínútu, …
Christian Pulisic skorar fyrir Bandaríkin gegn Íran á 38. mínútu, 1:0. AFP/Fabrice Coffrini

Christian Pulisic meiddist þegar hann skoraði, en hann lenti í árekstri við markvörð Íran, og þurfti talsverða aðhlynningu. Hann gat þó haldið áfram.

Uppbótartími fyrri hálfleiks í báðum leikjum var fimm mínútur. Wales komst í honum í sitt besta færi en Joe Allen skaut frá vítateig yfir enska markið. 

Tim Weah kom boltanum í mark Íran í lok uppbótartímans en var dæmdur rangstæður.

Hálfleiksstöðurnar: Bandaríkin - Íran 1:0 og Wales - England 0:0. England er því með 5 stig, Bandaríkin 5, Íran 3 og Wales 2 stig. Í þeirri stöðu myndi England mæta Senegal og Bandaríkin mæta Hollandi.

Walesbúar hófu seinni hálfleik án fyrirliðans Gareth Bale sem var skipt af velli fyrir Brennan Johnson, sóknarmann Nottingham Forest.

Christian Pulisic gat ekki haldið áfram leik með Bandaríkjamönnum vegna meiðslanna og Brenden Aaronson, leikmaður Leeds, kom í hans stað.

Tvö mörk frá Rashford

England náði forystunni gegn Wales á 50. mínútu. Marcus Rashford skoraði með föstu skoti af 20 metra færi, beint úr aukaspyrnu, 1:0.

Declan Rice, Jude Bellingham og Phil Foden fagna eftir að …
Declan Rice, Jude Bellingham og Phil Foden fagna eftir að Foden kom Englandi í 2:0. AFP/Ina Fassbender

Aðeins mínútu síðar var England komið í 2:0. Walesbúar misstu boltann rétt utan vítateigs, Harry Kane gaf fyrir mark þeirra frá hægri og Phil Foden var mættur á markteignum fjær og skoraði með viðstöðulausu skoti, 2:0.

Íranir sóttu í sig veðrið gegn Bandaríkjunum, þurftu jöfnunarmark, og á 52. mínútu kastaði Saman Ghoddos sér fram og skallaði af markteig en yfir bandaríska markið.

Marcus Rashford fagnar eftir að hafa komið Englandi yfir gegn …
Marcus Rashford fagnar eftir að hafa komið Englandi yfir gegn Wales, 1:0, beint úr aukaspyrnu. AFP/Andrej Isakovic

Aaron Ramsey hjá Wales fékk gula spjaldið á 62. mínútu fyrir harkalega tæklingu á Jordan Henderson sem þurfti talsverða aðhlynningu.

Á 68. mínútu komst England í 3:0 gegn Wales. Marcus Rashford slapp upp hægri kantinn, lék síðan inn í vítateiginn, fram hjá varnarmanni og skaut í hornið nær. Þetta var annað mark hans í leiknum. Rashford var ekki langt frá þrennunni á 72. mínútu en Danny Ward varði frá honum.

Íranir sóttu meira gegn Bandaríkjunum eftir því sem leið á síðari hálfleikinn en lítið var um marktækifæri.

Englendingar sigldu heim öruggum sigri, 3:0.

Englendingurinn Jordan Henderson og Walesbúinn Ben Davies eigast við.
Englendingurinn Jordan Henderson og Walesbúinn Ben Davies eigast við. AFP/Andrej Isakovic

Íranir sóttu af krafti í níu mínútna uppbótartíma og á þriðju mínútu hans skallaði Morteza Pouraliganji fram hjá marki Bandaríkjanna eftir aukaspyrnu. Á níundu mínútunni vildu Íranir fá vítaspyrnu en dómarinn hafnaði því eftir skoðun í VAR-herberginu. Rétt á eftir var flautað til leiksloka, Bandaríkjamenn voru komnir áfram en Íranir voru úr leik.

Lið Englands:
Mark: Jordan Pickford.
Vörn: Kyle Walker (Trent Alexander-Arnold 57.), John Stones, Harry Maguire, Luke Shaw (Kieran Trippier 65.).
Miðja: Jordan Henderson, Declan Rice (Kalvin Phillips 57.), Jude Bellingham.
Sókn: Phil Foden, Harry Kane (Callum Wilson 57.), Marcus Rashford (Jack Grealish 76.).

Lið Wales:
Mark: Danny Ward.
Vörn: Neco Williams (Connor Roberts 36.), Chris Mepham, Joe Rodon, Ben Davies (Joe Morrell 59.).
Miðja: Aaron Ramsey, Ethan Ampadu, Joe Allen (Rubin Colwill 81.).
Sókn: Gareth Bale (Brennan Johnson 46.), Kieffer Moore, Daniel James (Harry Wilson 77.).

Lið Bandaríkjanna:
Mark: Matt Turner.
Vörn: Sergino Dest (Shaquell Moore 82.), Cameron Carther-Vickers, Antonee Robinson.
Miðja: Weston McKennie (Kellyn Acosta 65.), Tyler Adams, Yunus Musah.
Sókn: Tim Weah (Walter Zimmermann 82.), Josh Sargent (Haji Wright 77.), Christian Pulisic (Brenden Aaronson 46.).

Lið Íran:
Mark: Alireza Beiranwand.
Vörn: Ramin Rezaeian, Majid Hosseini, Morteza Pouraliganji, Milad Mohammadi (Ali Karimi 45+2).
Miðja: Ahmad Noorollahi (Mehdi Torabi 71.), Saeid Ezatolahi, Ehzan Hajisafi (Abolfazl Jalali 71.).
Sókn: Ali Gholizadeh (Karim Ansarifard 77.), Sardar Azmoun (Saman Ghoddos 46.), Mehdi Taremi.

Danny Ward markvörður Wales ver frá Marcus Rashford á 10. …
Danny Ward markvörður Wales ver frá Marcus Rashford á 10. mínútu úr góðu færi Englendinga. AFP/Paul Ellis
Ethan Ampadu og Jordan Henderson eigast við í leik Wales …
Ethan Ampadu og Jordan Henderson eigast við í leik Wales og Englands. AFP/Javier Soriano
Ahmad Bin Ali Stadium leikvangurinn í Al Rayyan rétt fyrir …
Ahmad Bin Ali Stadium leikvangurinn í Al Rayyan rétt fyrir leik Englands og Wales. AFP/Javier Soriano.
Íran og Bandaríkin leika á Al-Thumama leikvanginum í Doha.
Íran og Bandaríkin leika á Al-Thumama leikvanginum í Doha. AFP/Odd Andersen
mbl.is