Fleiri forföll hjá Brasilíumönnum

Alex Sandro á fullri ferð í leiknum við Sviss.
Alex Sandro á fullri ferð í leiknum við Sviss. AFP/Fabrice Coffrini

Alex Sandro, vinstri bakvörður Brasilíumanna, missir allavega af næsta leik liðsins á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Katar.

Sandro, sem er 31 árs gamall leikmaður Juventus á Ítalíu, hefur glímt við meiðsli í mjöðm en þau tóku sig upp á lokamínútunum í leiknum við Svisslendinga í annarri umferð G-riðilsins í gær. Hann hafði áður spilað allan tímann gegn Serbum í fyrsta leiknum.

Læknir liðsins staðfesti þetta við ítalska netmiðilinn Calciomercato en sagði að reynt yrði að koma honum í leikfært stand sem fyrst. Brasilíumenn eru þegar komnir í sextán liða úrslit þó þeir eigi eftir að mæta Kamerún í riðlakeppninni.

Áður höfðu bæði Neymar og Danilo meiðst á ökkla. Læknirinn sagði að þeir væru líka afskrifaðir fyrir leikinn gegn Kamerún en lengra næði áætlunin með þá ekki að svo stöddu. Brasilíumenn munu leika í sextán liða úrslitunum 3. desember og freista þess eflaust að hafa þremenningana þá alla tilbúna í slaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert